mánudagur, júlí 05, 2004

Helgin

Meðan við Ásta nutum lífsins í sumarbústaðnum á Laugarvatni var ríkisstjórnin (les. Davíð og Halldór) að slást við að hanna þjóðaratkvæðagreiðslu um Norðurljósalögin. Þessum stjórnarherrum (sem kosnir voru af minnihluta kosningabærra manna skv. eigin reiknilist) tókst ekki betur til en svo að ofan á varð að að taka lögin til baka - til að vinna þau betur í þinginu.

Það fannst mér sæmilega skynsamlegt við fyrstu sýn. Hvað ef Davíð hefði látið samþykkja vond lög um þjóðaratkvæði - og Ólafur Ragnar hefði synjað þeim og vísað þeim til þjóðarinnar?

Ég varð hins vegar ekki sérstaklega hissa þegar í ljós kom að Davíð og Halldór voru þegar búnir að ákveða hvernig þingið ætti að afgreiða lögin (svokallað þingræði felst greinilega í því að þeir eiga að ráða yfir þinginu). Það á sem sagt ekki að gefa málinu betri tíma og vinna að breiðri sátt um löggjöf um fjölmiðla, heldur þvinga málið í gegn með smávægilegum breytingum til mildunar.

Það breytir því þó ekki að hér ennþá um að ræða aðför gegn einu fyrirtæki (sem ríkið er reyndar í samkeppnisrekstri við, en látum það liggja milli hluta).

Sem fyrr er engin viðleitni til að skapa almenna umgjörð um fjölmiðla- og fréttastofurekstur í landinu og ekkert unnið að því að styrkja sjálfstæði ritstjórna, t.d. gagnvart eigendum, augýsendum, stjórnmálaflokkum o.s.frv. Í staðinn eru alþingismenn aftur komnir í þá vandræðalegu stöðu að þurfa að samþykkja lítillega útlitsbreytt Norðurljósalög eftir höfði Davíðs og Halldórs eins og strengjabrúður.

Ég vorkenni alþingismönnum. Þetta hlýtur að vera sárt.

ps
Ég er í vafa um viðbrögð stjórnarandstöðunnar. Það er hálf kindarlegt að mæta á þing með voða flott frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu sem enginn nennir að ræða. Kemur í ljós hvernig það þróast. Það er hins vegar skandall að alþingi hafi ekki fyrir löngu sett slík lög.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home