Í gær var varnarleikur í beinni á SÝN. Kannski varla við öðru að búast, öll skemmtilegu liðin dottin út úr Meistaradeildinni og fúleggin eftir. Það hefði verið skemmtilegra að horfa á Barca, Man Utd, Real og Lyon berjast um 5. sætið heldur en að horfa á tímann líða meðan beðið er eftir súrum varnarúrslitaleik Milan - Chelsea, og ekki væri Milan - Liverpool betri kostur. Nóg um það.
Ég var að fá tilboð í bílatryggingar og kostnaðurinn við að færa sjálfsábyrgð úr 20.000 kr. niður í 0 kr. er kr. 7.000. Á maður að gera það? Þetta er tilvistarleg spurning. Á maður að borga 7.000 kr. til að sleppa við kostnaðinn af því þegar einhver karl með hatt keyrir utan í bílinn fyrir utan IKEA eða ekki? 7.000 kr. fyrir algjör ábyrðgarleysi. Tja. Maður spyr sig. Hvers virði er ábyrgðarleysi.
Sting upp á því að Sjónvarpið fái Hrafn Gunnlaugsson til að gera þáttaröð um deilurnar í Menntaskólanum á Ísafirði. Myrkrahöfðinginn 2. Þetta er sama konseptið: Menntamaður að sunnan með einstrengingslegar skoðanir reynir að breyta til í vestfirsku plássi. Handritið hefur verið að skrifa sig sjálft á síðum Morgunblaðsins undanfarnar vikur. Hvað gerist næst? Verður enskukennarinn brenndur á báli fyrir utan Menntaskólann? Hvað gerir Mugison? Fer Ólína suður á fund Þorgerðar Katrínar (leikin af Kjartani Gunnarssyni) og fær lausn sinna mála? Hrafn í málið.
Nú styttist í sumardagskrá RÚV með tilheyrandi endursýningum og útþynningu. Ég sting upp á því að það verði endursýndir hinir stórbrotnu þættir sem voru á dagskrá á gullöld RÚV (hvenær var hún annars?) og hétu Sjónvarp næstu viku. Þá verður dagskráin betri en hún var hjá þeim síðasta sumar.
Hvað með að fá Magnús Bjarnfreðsson aftur með þáttinn Á döfinni?
SvaraEyða