mánudagur, nóvember 22, 2004

Fórum á Beach Boys í gær. Eiginlega fannst mér Rúni Júll standa upp úr.

Ekki nóg með að Hljómar úr Keflavík hituðu upp, heldur voru þeir klappaðir upp. Þeir áttu greinilega ekki von á því og voru ekki tilbúnir með uppklappslag, höltruðu í gegnum Bláu augun þín með aðstoð troðfullrar Laugardalshallar. Ætli þetta sé ekki toppurinn á þeirra ferli? Maður hefur séð Rúna í gegnum tíðina oft við mjög daprar aðstæður, hann er búinn að fara niður og aftur upp og var langflottastur í gær í kjólfatajakka við gallabuxurnar. Hver mundi vera tekinn alvarlega í slíkum galla annar en Hr. Rokk?

Beach Boys voru bæði góðir og vondir. Mörg lögin eru náttúrlega frábær og oft fékk maður hreint og ómengað Strandstrákasánd, en á milli brast á með gítarsólóum og rugli. Gömlu kallarnir voru seinir í gang en voru fínir í þeim fáu lögum sem þeir sungu. Held að hljómborðið hans Bruce Johnston hafi ekki einu sinni verið í sambandi þótt hann hafi lamið á það við og við. Þessir menn eru að nálgast síðasta söludag. Ætli Beastie Boys komi svo eftir 40 ár?

Tilkynnt í dag að vaxtabæturnar séu að lækka. Þar með hefur ríkið tekið í sinn hlut góðan part af vaxtalækkuninni sem "samkeppni" bankanna færði almenningi. Kynslóðin sem ræður á alþingi þurfti aldrei að borga neitt fyrir íbúðirnar sínar þar sem þeirra skuldir brunnu á verðbólgubálinu. Við sem yngri erum fáum ekkert að láni nema það sé tryggt og baktryggt í vöxtum og verðtryggingu. Aðstöðumunur kynslóða?

Rúni Júll fór reyndar létt með þetta. Sautján ára gamall þá ferðaðist hann um landið með Hljómum, flaug í bæinn til að spila með Keflavík og gaf sér tíma þar í milli til að byggja 2 hæða hús. Þar rekur hann enn hljóðverið Geimstein og þar, og hvergi annars staðar, ættu menn að setja upp rokksögusafn Íslands, og það sem allra fyrst. Rúni getur svo verið safnvörður þar milli þess sem hann rokkar feitt með Hjómum, fyrst hann kemst ekki lengur í liðið hjá Keflavík.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home