fimmtudagur, október 06, 2005

Listræn kvikmyndahátíð

Jæja, nú stendur semsagt yfir mikil kvikmyndahátíð og afhjúpast þá svokallaðir sjálfnefndir kvikmyndaáhugamenn sem Hollywoodhórur. Til dæmis ég, því ég þykist hafa áhuga á bíó en svo þegar þessi hátíð byrjaði þá nennti ég eiginlega ekkert að leggja hana niður fyrir mig, ergo Hollywoodhórkarl.

En svo rak ég augun í það í gær að síðasta sýning á pólsku myndinni Nikifor minn átti að vera klukkan 7 í gærkveldi og ákvað að skella mér nú á hana og fór í Tjarnarbíó 2 tímum fyrir sýningu til að tryggja mér miða. Þar var þá allt harðlæst og á plakati stóð að miðasala væri í Iðu. Ég lét mig hafa það að skröltast fyrir Tjarnarhornið inn í Lækjargötu og viti menn þar voru tveir starfsmenn að selja miða á hátíðina. Ég bað um 2 miða á Nikifor minn klukkan 7 takk.

En þá var ekki hægt að kaupa miða: „Við erum búin að senda frá okkur listann fyrir daginn í dag" var mér sagt. „En það er allt í lagi, þú getur mætt hálftíma fyrir sýningu og kannski eru til miðar“. Ég átti semsagt að fara heim og koma aftur niður í bæ og stilla mér upp við Tjarnarbíó og fá KANNSKI miða??

Ég vissi að myndirnar á þessari kvikmyndahátíð væru listrænar, en er ekki óþarfi að hafa miðasölukerfi sem lítur út eins og listrænn gjörningur?

Góðu fréttirnar eru þær að ég á frátekna 2 miða á Strings í kvöld. Vona ég.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home