fimmtudagur, júlí 06, 2006

Hrakfarir Samfylkingarinnar

Nafnlaus lesandi bað mig að fjalla meira um hrakfarir Samfylkingarinnar. Allt í lagi að velta því aðeins fyrir sér.

Flokkurinn stendur illa í könnunum og þarf greinilega að taka sér tak. Ég er einhvern veginn þeirrar skoðunar að fólk þar innandyra eigi of lítið sameiginlegt. Augljóst er að þarna safnast saman fólk sem hefur varann á gagnvart Sjálfstæðisflokknum, en sumir þarna inni eiga sér þó engan draum heitari en að fara í ríkisstjórn með þeim hinum sama flokki - sem aðrir flokksfélagar hata meira en AIDS. Annað sem Samfylkingarfólk á EKKI sameiginlegt, er söguleg arfleifð. Flokkurinn reyndi að eigna sér eitthvað afmæli um daginn, var það afmæli Alþýðuflokksins eða Alþýðusambandsins? Nobody knows. Vinstri grænir fengu í föðurarf alla andstöðuna við Keflavíkurstöðina, Nató, umhverfis- og þjóðrækni og annað sem gaf hugtakinu 'vinstri-maður' merkingu á undanförnum áratugum. Samfylkingin hefur enga rót í sögunni og hangir þess vegna í ákveðnu tómarúmi sem gerir mönnum erfiðara fyrir um að fóta sig á hálu og köldu sundlaugargólfi stjórnarandstöðunnar, jafnvel þótt lömuð ríkisstjórn troði marvaðann í dauðafæri.

Samfylkingin hefur eytt miklu púðri í ýmiss konar stefnumótun og hugmyndavinnu, samanber framtíðarhópinn mikla. Gallinn er sá að út úr þessu hafa ekki komið neinar konkret hugmyndir, engin sérstaða, ekkert æðislegt sem fólk er tilbúið að berjast fyrir og kjósa. Ekkert sem gerir Samfylkinguna að augljóst betri kosti en SJálfstæðisflokkinn.

Ég er þeirrar skoðunar að núverandi undiralda í samfélaginu sé umhverfisvernd. Draumalandið, framtíðarlandið. Hvert stefnir. Þar hafa Vinstri grænir þegar skýra sérstöðu, meðan sumir þingmenn og bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar sogast að virkjunum og álverum eins og flugur að kamri. Hér þarf Samfylkingin að taka slag innandyra og ákveða hvað hún ætlar að segja og hvernig hún ætlar að segja það. Hættan er líka sú að umhverfismál ársins 2007 verði eins og sjávarútvegsmálin og kvótakerfið 1999 og 2003. Þegar kom að kosningum þá voru þau mál orðin svo þreytt að fólk nennti ekki að hlusta, hvað þá að kjósa um þau.

Er þá Samfylkingin kannski óþarfi? Aldeilis ekki. Þar eru tækifæri til að takast á við þau verkefni sem blasa við eftir kapítalíska þeysireið undanfarinna tveggja áratuga. Hvað á að gera við innflytjendur? Hvernig sýnum við gamla fólkinu tilhlýðilega virðingu? Hvert á að vera hlutverk lífeyrissjóðanna fyrir utan að bólgna út af peningum? Hvernig mega auðmenn og auðhringir umgangast það mikla og góða frelsi sem hér ríkir? Hvaða atvinnustefna getur svarað þörfum okkar án þess að rústa fágætri náttúru? Hvernig á að búa um gömlu atvinnugreinarnar, landbúnað og sjávarútveg, í nýju umhverfi? Hver eiga að vera grundvallar-réttindi á vinnumarkaði? Hvernig menntum við börnin okkar sem best?

Þessum spurningum hafa Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn ekki sinnt, og virðast ekki hafa áhuga á því. Þarna er tækifæri fyrir Samfylkinguna að koma með sannfærandi svör. Takið eftir því að þau verða að vera sannfærandi. Liggur helsti vandinn þar?

Annars hef ég auðvitað ekkert um Samfylkinguna að segja.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Kvótamálið var svo sannarlega mál í kosningunum 2003 og var það sem lengdi líf Frjálslynda flokksins. Jafnvel má spyrja hvort góð kosning Samfylkingarinnar hafi jafnvel verið að hluta vegna þessarar (að mínu mati óskiljanlegu) kvótabylgju.

4:54 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home