þriðjudagur, september 05, 2006

Stones

Íslenskan er fátæklegt tungumál. Það eru svo fá orð í henni yfir framandi hluti á borð við upplifunina á tónleikum Rolling Stones í Horsens. Enskan á kannski aðeins fleiri, smellið hér til að lesa dóma um tónleikana.

Við feðgar, og Halli sem var í för með okkur, vorum staðráðnir í að tryggja okkur gott stæði á 'almennu farrými'. Þess vegna lögðum við það á okkur að hefja biðina við hliðin klukkan 14:30.



Þetta þýddi að við náðum óskastaðnum okkar, upp við b-sviðið, Keith megin gagnvart sviðinu og það átti svo sannarlega eftir að borga sig. Skemmtilegt móment þegar undirritaður hljóp sem mest hann mátti í átt að sviðinu með myndavél falda á helgasta stað. Hefði viljað eiga mynd af því!

Biðin var löng en ekki ströng þar sem félagsskapurinn var góður og Danskurinn hress. Danskurinn grætur ekki að drekka ölið.

Maximo Park hitaði upp, skemmtileg sveit og söngvarinn, sem heitir því smekklega nafni Paul Smith, var greinilega búinn að taka námskeiðið Jagger 101, í Fjölbrautaskólanum í Newcastle.

Klukkan 21:15 voru öll ljós slökkt og örfáum mínútum síðar hófst mikið sjónarspil þegar risasviðið vaknaði til lífsins með ljósum, myndskeiðum og flugeldum. Þetta náði síðan hámarki þegar fyrstu hljómarnir í Jumpin Jack Flash heyrðust og goðið Keith gekk inn á sviðið. Restin af bandinu kom í kjölfarið og rosalegustu tónleikar sem ég hef verið á hófust.



Jaggerinn var í feiknastuði og þeir allir reyndar, enda voru þetta bæði stærstu og síðustu tónleikarnir á Evrópulegg tónleikaferðarinnar 'A Bigger Bang'. Jaggerinn ræddi þetta aðeins og lofaði því að þar sem þeir væru að fara í frí þá mundu þetta verða bestu tónleikarnir á túrnum. Miðað við dómana sem linkað er á hér á ofan þá er það líklega rétt.

Hápunktar fyrir mig á fyrri hluta tónleikanna: Byrjunin, Bitch, Streets of Love og Midnight Rambler. Svo kom Keith og tók tvö lög og átti 'salinn' gjörsamlega. Before they make me run er rosalegt lag.



Þá kom Jaggerinn aftur inn á sviðið í rauðum glansjakka og þeir tóku Miss You og þá byrjaði Há-hápunkturinn fyrir okkur, þegar b-sviðið færðist til okkar. Eðli málsins samkvæmt fór hljóðið aðeins úr böndunum fyrir okkur sem vorum alveg upp við b-sviðið en það breytti engu. Þetta var svo svakalega skemmtilegt.









Þeir tóku þrjú lög á b-sviðinu og svo rúlluðu þeir til baka á risasviðið og renndu sér magnaða útgáfu af Sympathy for the Devil. Jaggerinn var í rauðum, loðnum frakka með glimmerpípuhatt og öllum brögðum var beitt. Smelltu til að sjá brot:



Eftir þessa bálför var liðið ræst í seiðmagnaða útgáfu af Paint it Black og slúttað á Brown Sugar. Jaggerinn æsti lýðinn upp og uppklappslögin voru You Can't Always Get What You Want og Satisfaction. Bæði frábær.

Þeir voru sáttir í lokin feðgarnir og vonandi fáum við tækifæri til að gera þetta aftur. Og aftur.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home