mánudagur, apríl 30, 2007

Atvinnulif, viðskipti og njósnir

Þetta er pöbbkvissið frá því á föstudag. Bannað að gúggla!

1.
Sum störf eru þannig í eðli sínu að kastljósið beinist mikið að viðkomandi og sum störf eru þannig að tilkynna þarf ráðningu í Kauphöllinni. En ég spyr við hvað starfar hinn áttræði Joseph Ratzinger en tilkynnt var um ráðningu hans með reykmerki?
2.
Já, sum störf hafa það í för með sér að fólk eru mikið í kastljósi fjölmiðlanna, önnur ekki neitt. Sum eru þar mitt á milli og tilvalið að spyrja um þau. Við hvað starfa þau Theodór Freyr Hervarsson, Jenný Olga Pétursdóttir, Hrafn Karlsson og Þóranna Pálsdóttir, nöfnin ættu að hljóma kunnuglega, en við hvað starfar þetta fólk: Theodór Freyr Hervarsson, Jenný Olga Pétursdóttir, Hrafn Karlsson og Þóranna Pálsdóttir
3.
Næst spyr ég um fyrirbæri í íslensku viðskiptalífi og vitna í texta af heimasíðu fyrirbærisins:

Allir sem stunda rekstur, hvort sem er í smáum eða stórum stíl geta átt aðild að fyrirbærinu. Fyrirbærið er tæki atvinnulífsins til þess að vinna að hvers konar framförum sem bæta starfsskilyrði atvinnulífsins og auka velmegun.

Fyrirbærið rekur tvo skóla, Háskólann í Reykjavík og Verslunarskóla Íslands og hefur um langt skeið sett menntamál á oddinn í starfsemi sinni.

Fyrirbærið er hlekkur í keðju 11.000 fyrirbæra um allan heim.

Með því að gerast aðili að Fyrirbærinu getur þú tekið þátt í að móta nýjar hugmyndir sem auka árangur fyrir Ísland um leið og fyrirtæki þitt fær gott tækifæri til að efla bæði innlent og alþjóðlegt tengslanet sitt.

Ef þú óskar eftir nánari upplýsingum um Fyrirbærið þá vinsamlega hafðu samband við Höllu Tómasdóttur framkvæmdastjóra fyrirbærisins í síma 5107100.

Hvert er fyrirbærið?

4.
Ein óöruggasta og mest krefjandi starf sem hægt er að taka að sér er að vera knattspyrnustjóri í efstu deild á Englandi, og það hlýtur að vera frústrerandi fyrir þá sem gegna því starfi á ári hverju að frá því að fyrst var keppt í ensku úrvalsdeildinni árið 1992 hafa aðeins fjórir knattspyrnustjórar unnið sigur í deildinni. Einn átta sinnum, einn þrisvar, einn tvisvar og einn einu sinni. Alex Ferguson, Arsene Wenger og José Mourinho hafa verið sigursælari en þessi eini þarna...sem vann einu sinni – Kenny Dalglish, en hvaða liði stýrði Dalglish til sigurs í ensku úrvalsdeildinni?

5
Sjósókn hefur lengi verið undirstöðuatvinnugrein á Íslandi, en kannski er ástandið á staðnum sem ég spyr um nú lýsandi fyrir þverrandi ítök greinarinnar. Staðurinn hefur verið háður sjósókn. Langt er síðan síðast var reist hús þar, síðast var byggt 1994 en þann 31. mars gerðust þau gleðilegu tíðindi að tekin var skóflustunga að nýju húsi. Staðurinn hefur einnig gengið undir nafninu Sveinseyri og Tunguþorp og er þaðan gerður út einn línubátur, en yfir vetrarmánuðina eru þrjár trillur á miðunum. Ferðaþjónusta og trésmíðar setja líka svip sinn á plássið. „Hér er gott að búa, veðursældin er mikil og náttúrufegurðin er alls staðar segja heimamenn. Staðurinn er umlukinn háum tilkomumiklum fjöllum og er tilvalinn til gönguferða meðfram ströndinni og fjallgangna.

Á heimasíðu bæjarfélagsins kemur fram að þarna er jarðhiti og bærinn á þess vegna faramúrskarandi sundlaug. Félagslífið er líka gott og ef maður þarf að bregða sér í bíó eða í leikhús er leiðin ekki lengri en á höfuðborgarsvæðinu Patreksfjörður er bara í tíu mínútna fjarlægð með bíl og og þar er bæði leikfélag og kvikmyndahús.

Hvert er þekktara nafn á bæjarfélaginu Sveinseyri?
6
Aðeins um olíuhreinsunarstöðina, sem Ólafur Egilsson fyrrverandi sendiherra vill byggja, því atvinnuleysi í mars 2007 var 1,3% á landinu öllu, sem jafngildir því að 1.934 manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum. Það er hins vegar athyglisvert að atvinnuleysi á Vestfjörðum er mun lægra en landsmeðaltalið og voru 30 manns skráðir atvinnulausir á Vestfjörðum í mars. Hversu mörg störf á olíuhreinsunarstöðin að skapa samkvæmt þessum fyrstu hugmyndum – og eru afleidd störf ekki talin með, en afleit störf eru hins vegar meðtalin

7
En hvaðan á olían að koma sem verður hreinsuð á Vestfjörðum? Getur verið að hún komi úr okkar eigin olíulindum? Íslenskir bjartsýnismenn kynntu ekki alls fyrir löngu áform um olíuleit við endimörk lögsögu okkar út af landinu á ónefndu svæði, sem reyndar er nefnt eftir einni landvættinni í skjaldarmerkinu. Hvað er þetta svæði kallað?
8.
Sumir segja reyndar að olía sér að verða úreltur orkugjafi og endurnýjanleg orka sé framtíðin og tala um græna byltingu. Á áttunda áratugnum var reyndar vinsælt lag sem hét Græna byltingin, þar sem meðal annars er talað um að mála malbikið grænt. Kannski breytir Vegagerðin um lit á malbikinu á næsta kjörtímabili því höfundur lagsins er nú í framboði til alþingis, en fyrir hvaða flokk?
9.
Kannski er það arfleifð byltingarinnar, en verkföll eru fylgifiskur frjáls atvinnulífs. Ein þekktasta verkfallsstétt landsins er mjólkurfræðingar, sem oft hafa haldið íslenskum heimilum í heljargreipum þegar samningar eru lausir og hafa margar húsmæður reynslu af því að hamstra mjólkurvörur þegar þessi stétt lætur skína í verkfallsvopnið. En það er ekki nóg að hamstra því mjólk vill súrna. Því er spurt. Hversu marga daga eftir pökkun er síðasti söludagur venjulegrar mjólkur. Skekkjumörk einn dagur.

10.
Lárviðarskáld er um staða sem rekur sögu sína aftur um aldir. Á síðari tímum er Ted Hughes þekktastur fyrir að gegna þessari stöðu - hjá Bretum. Lárviður er jurt sem er af ættinni Lauraceae, rétt eins og avacado ávöxturinn. Lengi vel hafði avacado ekki nafn á íslensku, en samkvæmt mínum heimildum var það snjall þýðandi sem íslenskaði heiti avacado sem lárperu, og nýtti sér þessi tengslin við lárviðinn. Og þetta gerði maðurinn, sem ég vil kalla lárviðarskáld og snilling, þegar hann þýddi Smjattpattana á íslensku, hvorki meira né minna. Smjattpattarnir, þetta merka menningarfyrirbrigði færði okkur lárperuna með aðstoð þessa manns.
11.
Við þurfum að sjálfsögðu að spyrja um hlutabréf, en þau voru merkileg uppfinning og gerðu mönnum kleift að bindast félagi til að koma stærri hlutum í verk. Fyrsta fyrirtækið til að gefa út hlutabréf í sér og bjóða mönnum upp á að láta bréfin ganga kaupum og sölum var stofnað 1602 í Hollandi. Hefur margur maðurinn grætt á þessu braski síðan. En þessu ákveðna fyrirtæki var úthlutað 21 árs einkaleyfi á starfsemi sinni og var með gríðarleg umsvif víða um heim, til dæmis í Asíu og Suður-Ameríku á þess tíma mælikvarða, var fyrsta fjölþjóðlega fyrirtækið og greiddi hluthöfum sínum drjúgan arð í um 200 ár eða þar til það varð gjaldþrota árið 1800. Veitingastaður hér í borg er nefndur eftir því nafni sem þetta fyrirtæki gekk undir á Íslandi en hvað hét það?

12.
Fyrst við erum byrjuð að ræða hlutabréf þá langar mig að ræða um vísitölur. Svokölluð úrvalsvísitala er reiknuð út frá verðbreytingum í ákveðnum hópi stærstu fyrirtækjanna í kauphöll Íslands. Vísitalan gefur mynd af stemmningunni í Kauphöllinni dag frá degi. Hversu mörg fyrirtæki eru inni í íslensku úrvalsvísitölunni? Talan er lægri en 20 og gengur og hún er margfeldi af þremur.

13
Að vera forseti Bandaríkjanna er eftirsótt starf. Ég spyr um einn sem gegndi þessu starfi tvisvar.

Kosningabaráttan var neikvæð og var hann sakaður um að eiga barn í lausaleik og hrópuðu andstæðingar gjarnan "Ma, Ma, where's my Pa?", á fundum. Eftir sigurinn birtist hins vegar í dagblaði sem var hliðhollt honum: "Ma, Ma, where's my Pa? Gone to the White House! Ha Ha Ha!"

Hann slapp við herkvaðningu með því að ráða annan mann til að fara í staðinn fyrir sig.

Svo tapaði hann í forsetakosningunum þrátt fyrir að fá fleiri atkvæði en keppinauturinn.

Nei þetta er ekki Clinton, Bush eða Al Gore í einum manni. Þessi félagi okkar nýtur þess heiðurs að vera bæði 22. og 24. forseti Bandaríkjanna, sem þýðir að þótt George Bush sé 43. forseti BNA þá er hann samt bara fertugasti og annar maðurinn til að gegna embættinu. Eftirnafn þess sem við spyrjum um er einnig nafn á fjölmennustu borg Ohiofylkis (ekki höfðborg Ohio). Hvað hét 22. og 24. forseti Bandaríkjanna?

14
Bandaríkjaforsetar þurfa að vinna mikið og sumir hafa verið staðnir að framhjáhaldi. Einn annar sem vinnur mikið er hann Gvendur. Gvendur heldur við konu en veit ekki að hún gengur milli manna og er við þá kennd. Ónefndur maður vill ólmur slást í þennan hóp, sérstaklega í kvöld, því þá er Gvendur að vinna. Líklega er ónefndi maðurinn masókisti því alltaf þegar hann er nærri þessu kvendi fær hann nýrnakast, ærist og hjartað hamast hraðar og fer tvist og bast. Einnig virðist hann hafa ringlaða mannætutendensa gagnvart þessari konu. Hvað heitir hún?

15
Læknar eru mikilvæg starfsgrein, ekki síst ef maður fær nýrnakast og sú goðsögn er viðhöfð að læknar skrifi mjög illa. Ég spyr nú um lækni sem skrifaði hins vegar vel. Þetta er haft eftir honum: Læknavísindin eru löggilt eiginkona mín, en skáldskapurinn er hjákonan“. Síðustu 10 ár ævi sinnar sinnti hann eingöngu ritstörfum en hefði kannski átt að halda sér í betra læknaformi því hann dó úr berklum árið 1904, aðeins 44 ára að aldri. Fjöldi snilldarlegra smásagna læknisins halda minningu hans á lofti ásamt fjórum leikverkum sem teljast til helstu meistaraverka leikbókmenntanna og eru oft sett á svið um allan heim, persónurnar oft virðulegir herramenn í hörjakkafötum og settlegar systur með sólhlífar ásamt lágstemmdri harmoníkkutónlist. Þessi verk eru lágstemmd á yfirborðinu og undirtextinn þeim mun mikilvægari. Einhverra hluta vegna þá finnst mér Nemendaleikhúsið alltaf vera að sýna verk eftir þennan merka lækni og rithöfund.

Hvað hét læknirinn?
16
Listsköpun er í seinni tíð orðin arðvænlegri atvinnugrein og heyrist nú af mönnum sem jafnvel hafa listina að fullu starfi og menn verða jafnvel ríkir á þessu listabrölti. Einn þeirra spyr ég um núna en hann varð goðsögn í lifanda lífi og er að mörgu leyti enn óleyst gáta í hugum margra. Hann var sonur innflytjenda frá Tékkóslóvakíu, (faðir hans var námuverkamaður), sló í gegn sem myndlistarmaður og varð nokkurs konar holdgervingur ameríska draumsins enda voru eignir hans metnar á tugi milljóna dollara þegar hann lést, aðeins 58 ára að aldri. Hann lifði meðal annars af skotárás konu nokkurrar en ekki smávægilega gallblöðruaðgerð íslensks skurðlækns á bandarísku sjúkrahúsi.

Haft er eftir honum:

„Það besta við þetta land er að í Ameríku kaupa ríkustu neytendurnir nokkurn vegin það sama og þeir fátækustu. Þú ert kannski að horfa á sjónvarpið og sérð Kóka-Kóla, og þú veist að forsetinn drekkur Kók, Liz Taylor drekkur Kók og þú hugsar með sjálfum þér: Ég get líka drukkið Kók. Kók er Kók og engir peningar geta fært þér betra Kók en það sem róninn á horninu drekkur. Allt Kók er eins og allt Kók er gott. Liz Taylor veit það, forsetinn veit það, róninn veit það og þú veist það.”

Veist þú það, hvað hann hét?

17
Sjómennskan er atvinnugrein sem er sérstaklega í heiðri höfð á Íslandi, svo mjög að sjómenn fá sérstakan afslátt af skattbyrði, svokallaðan sjómannaafslátt. Þeir sem fá greidd laun fyrir sjómannsstörf á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi, eiga rétt á sjómannaafslætti. Þetta gildir meira að segja líka um beitningamenn og jafnvel hafnsögumenn og áhafnir sanddæluskipa og reiknast ákveðin upphæð fyrir hvern dag á sjó og dregst reiknuðum tekjuskatti af launum þeirra. Spurt er af hverju fá sjómenn þennan afslátt? Við því hefur aldrei fengist svar og því spyr ég í staðinn:

Hversu mikinn afslátt fá sjómenn af skatti, skekkjumörk 100 krónur.?
18
Um áramótin lækkaði tekjuskattshlutfallið, en það var partur af markvissri kjarabótaaðgerð ríkisstjórnarinnar, en Geir Haarde sagði nýverið að hækkun skattleysismarka væri ómarkviss aðgerð því allir fengju jafn miklar kjarabætur, sem er miklu ómarkvissara en að lækka prósentuna því þá fá þeir sem hafa hæstar tekjur mest, sem er mjög markviss kjaramisvægisaðgerð.
Hér er einföld spurning sem allir ættu að vita, alla vega launþegar og skattgreiðendur.

Hvert er skatthlutfall tekjuskatts á Íslandi upp á einn réttan aukastaf. Ef þið vitið þetta ekki þá megið þið svara í staðinn hversu hér persónuafslátturinn er á mánuði. Skekkjumörk 50 krónur.

19
Næst er spurt um mann sem hefur örugglega fengið sjómannaafslátt og takið nú vel eftir. Hann var sjómaður á fraktara og sigldi um heimsins höf. Sagt er um þennan farmann að hann hafi verið svo grannur að hann minnti helst á þráð. Hann hafði miklar skoðanir á lífinu og tilverunni og sagði frá þeim glaður og brosti svo að skein í tóbaksbrúnar tennurnar. Orðrétt er eftir honum haft: „Mér er sama um frið og betra veðurfar. Regn og friður eru að vísu frjóseminni í vil, en fari það mín vegna fjandans til.“ Nú kemur tvistið: Að mati þessa manns eru einkum fjögur markmið sem stefna ber að í lífinu. Nefnið tvö þeirra.

20
Nú er ég við það að fá leiða á þessu helvítis atvinnu og viðskiptaþema og því kemur ein klassísk spurning úr íslensku máli. Hvað orð getur þýtt þetta þrennt: að byggja, bylta og að bulla.

21
Við skiptum nú um þema og förum úr atvinnu og viðskiptalífinu yfir í njósnir, með viðkomu í iðnaðarnjósnum en nýverið komst íslenskt fyrirtæki í fréttirnar eftir að starfsmaður sem tekið hafði gögn í leyfisleysi var sakaður um iðnaðarnjósnir. Starfsmaðurinn sem afritaði 29 skrár af netþjóni fyrirtækisins var dæmdur í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á höfundarlögum. Þannig að forstjóri fyrirtækisins kom í fjöllmiðla og sagði að greinilega væri íslensk löggjöf um iðnaðarnjósnir handónýt. Hvaða fyrirtæki var þetta?

22
Tökum þá til við alvöru njósnir

Njósnir á Íslandi hafa ekki á sér mjög fagmannlegt orð. Þegar hleranir stóðu sem hæst á tímum kalda stríðsins þá þóttust vinstri menn ávallt heyra þegar hlerunarbúnaðurinn var settur í gang. „Jæja, eru þeir byrjaðir að hlera“, sagðist til dæmis Guðrún Helgadóttir, hinn stórhættulegi barnabókahöfundur hafa sagt.

Til skamms tíma var talið að leynilegt eftirlit hins opinbera með þegnum landsins væri harla lítið hér á landi. Með árunum hefur þó fjölmargt komið fram sem bendir til hins gagnstæða og eftir því sem leynd hefur verið aflétt af ýmsum skjalasöfnum hér heima og erlendis hefur myndin skýrst smám saman.

Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson, bróðir handboltakappans Patreks, komst fyrir nokkrum misserum óvænt í gögn og heimildir um þessa starfsemi sem aðeins var á fárra vitorði og birti niðurstöður rannsókna sinna í bók sem vakti töluverða athygli í fyrra

Í bókinni er meðal annars greint frá því hjá hverjum var úrskurðað um hlerun, til dæmis held ég að Arnar Jónsson leikari hafi verið á þeim lista, líklega bara af því hann er með svo fallega rödd. „Mundu að kaupa signa ýsu Þórhildur mín…“

En hvað heitir þessi bók?

23
Kvikmyndin Breach er sannsöguleg frásögn af einu versta njósnahneyksli í sögu Bandaríkjanna. Robert Hanssen, Hátt settur embættismaður innan FBI afhenti Rússum ýmis leyndarmál og fékk fé og demanta að launum, en með því lýkur öllu samanburði við James Bond líkan glamúr njósnalífsins. Í lok myndarinnar kemur fram að hinn strangkaþólski Robert Hanssen er geymdur í varðhaldi til lífstíðar og þar af í einangrun 23 klukkustundir í sólarhring.

Hvað óskarsverðlaunahafinn sem leikur Hanssen í Breach?

24.
Lewis Scooter Libby, fyrrum Chief of Staff hjá Dick Cheney , var nýverið dæmdur fyrir sinn þátt í því að fjölmiðlar slógu upp nafni ákveðins CIA fulltrúa,en það er mjög alvarlegt brot að ljóstra því upp að ákveðnir menn vinni fyrir CIA. Scooter var þó ekki dæmdur fyrir að leka nafni fulltrúans, en það var gert í hefndarskyni fyrir ummæli maka viðkomandi, heldur fyrir að hindra framgang réttvísinnar í málinu og fyrir meinsæri og ranga skýrslugjöf. Ætli sá seki finnist nokkurn tímann?
Ekki ætla ég að greina frá nafni þessa CIA starfsmanns, en ég bið ykkur um að skrifa nafnið á svarblaðið.

Hvað hét CIA starfsmaðurinn sem CHENEY OG FÉLAGAR KJÖFTUÐU FRÁ.

25
Yfir í skáldskapinn. Næst spyrjum við um skáldsögu og samnefnda kvikmynd
Myndin er frá árinu 1965 og skartar Richard Burton í aðalhlutverkinu. Hann leikur Alec Leamas, breskan njósnara, sem flýr til Austur Þýskalands. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu sem kom út tveimur árum áður og sló í gegn, fékk gullrýtinginn og Edgarinn og fyrir stuttu fékk hún einnig rýtingsrýtinginn sem besta gullrýtingsskáldsaga allra tíma og er á lista TIME yfir 100 bestu skáldsögurnar. Þetta er að ég held þekktasta bók höfundarins en þó er Alec Leamas ekki hans þekktasta persóna, en fjölmargar af bókum höfundarins hafa verið kvikmyndaðar og er hann enn að senda frá sér bækur.

Hvaða mynd og skáldsaga er þetta?

26
Tom Clancy er þekktur njósnasöguhöfundur og ein af hans þekktustu persónum er Dr. Jack Ryan. Fjórar kvikmyndir hafa verið gerðar um ævintýri Jacks Ryan, sú fyrsta kom út árið 1990 en sú síðasta kom árið 2002. Það gengur ýmislegt á í þessum myndum, Rússar og írskir hryðjuverkamenn koma við sögu og meðal annars springur kjarnorkusprengja í Baltimore í einni myndinni. Þó er eitthvað hringlað með tímaröð ævintýranna.

Spurningin er hvaða þrír leikarar fara með hlutverk Jack Ryan í þessum fjórum myndum. Ein vísbending: Einn heitir Harrison Ford ( í Patriot Games og Clear and Present Danger)

27
Njósnarar þurfa oft að bregða sér í dulargervi. Í fornum sögum er sagt frá njósnara nokkrum sem var á mála hjá Haraldi Gormssyni Danakonungi. Það var í lögum haft á Íslandi að yrkja skyldi um Danakonung níðvísu fyrir nef hvert er á var landinu ástæðan til þess var sú að skip sem íslenskir menn áttu braut í Danmörk en Danir tóku upp fé allt og kölluðu vogrek. Kóngur var ósáttur við allt þetta níð og vildi hefna þessa og bað hann njósnara sinn að fara og kanna aðstæður á Íslandi. Njósnarinn var þekktur fyrir að bregða sér í allra kvikinda líki, en hvernig bjó hann sig fyrir Íslandsförina?
28
James Bond er að sjálfsögðu frægasti njósnari allra tíma og hér er skylduspurning. Nú nýverið lést leikarinn Barry Nelson sem fyrstur lék James Bond, hann lék í klukkustundarlangri sjónvarpsútgáfu af einni sögu Ians Flemings, en síðar lék hann einnig í kvikmyndinni Airport, Shining og í fjölmörgum sjónvarpsþáttum, þar á meðal þremur Dallas þáttum, en hvað hét Bond-sjónvarps-myndin sem hann lék í?

29
Enn er spurt um skáldaðan njósnara. Auðvitað var henni ætlað að verða njósnari verandi dóttir CIA manns og KGB konu. Hún er mikið afburðamenni, framúrskarandi bardagamaður og notast í þeim efnum við hina ísraelsku Krav Maga bardagaþjálfun. Meðal þeirra tungumála sem hún talar eru hollenska, portúgalska, rúmenska, hebreska, canton og mandarín að ógleymdu hindí, úsbekísku og Urdu. Síðan hún kom fram á sjónarsviðið, í Ríkissjónvarpinu í þáttunum Alias, hefur hún meðal annars þurft að þola dauða unnusta síns enda ekki auðvelt að vera njósnari nú til dags. Hvað heitir þetta njósnakvendi og hver leikur hana?

30
Minn uppáhalds njósnaleikari er enginn annar en Sir Michael Caine. Hann átti stórleiki kaldastríðsmyndum en hefur stundum misstigið sig í hlutverkavali.
Hann var einu sinni spurður hvort hann hefði séð hina hræðilegu mynd Jaws 4 sem hann lék í einu sinni, hann svaraði, Nei, en ég hef séð húsið sem ég keypti fyrir peninginn. Michael Caine lék ýmsa njósnara, til dæmis John Deray, Noel Holcroft, Maurice Micklewhite og Harry Palmer.....Eða hvað. Eitt af þessum nöfnum er nefnilega ekki nafn á njósnara sem leikinn var af Michael Caine.

John Deray, Noel Holcroft, Maurice Micklewhite og Harry Palmer, hvert þessara nafna er það.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

1 Comments:

Blogger Kristján Valur said...

1) Yfirpáfi
2)Þýðendur og þulir
3)Verslunarráð Íslands
4)Luton
5)Búðareyri
6)150
7) Drekasvæðið
8) Samfylkinguna
9) 9 dagar
10) Guðni Kolbeinsson
11) Austur-Indía Félagið
12) 12
13) Cleveland
14) Harðsnúna Hanna
15) Anton Chekov
16) Andy Warhol
17)
18) 39,5%
19 Eldra viskí, yngri konur, o.s.frv
20) steypa
21) Íslensk erfðagreining
22)
23)
24) Valerie Plame
25) Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum.
26)
27) Hann fór sem hvalur
28)
29) Konan með hrosshausinn.
39)

10:52 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home