föstudagur, október 26, 2007

Hinsta andvarp krúttkynslóðarinnar

Ég sá myndina Heima um daginn. Þar er Íslandsvinunum í Sigurrós fylgt eftir á tónleikaferðalagi um Ísland. Skotið er inn í myndina viðtalbútum á ensku með hinum sér-krúttlenska hreim. Þema myndarinnar er hvað þeir félagar eru rosalega ánægðir að koma til Íslands, nánast kalnir á hjarta eftir að spila fyrir milljónir, fundi með lögfræðingum og viðtöl við misvitra fjölmiðlamenn.

Miðað við hversu stór hluti myndmálsins er af óspilltri náttúru fannst mér meðlimir sveitarinnar ekki eins uppteknir af náttúrunni í viðtölunum eins og ég hefði talið. Þeir voru meira að tala um Ísland sem pláss, óupptekið svæði, sem andstæða við þrengslin í útlöndum. Reyndar er kafli um mótmælin við Kárahnjúka og Páll í Húsafelli sýndur við stein- og rabbabarahörpugerð.

Eftir myndina velti ég því fyrir mér hvort Heima sé nokkurs konar legsteinn krúttkynslóðarinnar. Getur Sigurrós komist lengra inn í músík-algleymi, þar sem sungið er á málleysu og gefnar út nafnlausar plötur? Getur verið að virkjunin í Kárahnjúka, sem er að fara í gang þessa dagana þrátt fyrir mikil og ítarlega mótmæli, hafi slökkt einhvern neista? Hvað með kolefnisjöfnunina sem er orðin eins og hvert annað gróðabrall og djók.

Er kominn tími á að vera bara hress og fá sem mest út úr þessum örfáu áratugum sem okkur eru útlhlutaðir á þessari kúlu mitt í hverginu? Er ekki runninn upp tími hljómsveita á borð við Sprengjuhöllina sem skrifa texta um allt það skemmtilega og skrýtna í samskiptum fólks og keyrir svo einfaldlega yfir Ísland?

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home