Hvar voru prinsippin þegar þetta var birt í febrúar
HydroKraft Invest er heiti á nýju alþjóðlegu fjárfestingafélagi í sameiginlegri eigu Landsbankans og Landsvirkjunar sem stofnað var í gær, 16. febrúar. HydroKraft Invest er ætlað að fjárfesta í verkefnum á erlendri grundu sem tengjast endurnýjanlegri orkuvinnslu, með áherslu á vatnsafl. Björgólfur Guðmundsson formaður bankaráðs Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans, Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður Landsvirkjunar og Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar undirrituðu samning um stofnun félagsins á blaðamannafundi í dag, föstudaginn 16.febrúar 2007.
Fáar þjóðir í heiminum búa yfir jafnmikilli þekkingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og Íslendingar, en 72% af frumorkunotkun landsmanna kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum samanborið við 13% heimsmeðaltal. Með stofnun félagsins vilja Landsbankinn og Landsvirkjun taka höndum saman um útflutning á þessari verðmætu þekkingu.
HydroKraft Invest er ætlað að leiða umbótaverkefni á sviði orkumála erlendis, einkum í Evrópu. Áhersla verður lögð á tæknilegar og rekstrarlegar endurbætur á eldri vatnsaflsvirkjunum í því skyni að bæta nýtingu þeirra og auka framleiðni.
Landsbankinn og Landsvirkjun eiga jafnan hlut í félaginu og leggur hvor aðili til tvo milljarða króna í hlutafé. Áætlað er að skjóta styrkari stoðum undir fjárhag félagsins með söfnun hlutafjár hérlendis á næstunni og mun Landsbankinn tryggja sölu á hlutafé í félaginu fyrir einn milljarð króna til viðbótar. Í kjölfarið er ráðgert að skrá HydroKraft Invest á erlendan hlutabréfamarkað.
Landsbankinn og dótturfélög hans hafa tekið þátt í fjölmörgum fjármögnunarverkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku. Verðbréfafyrirtæki bankans í Evrópu greina fyrir viðskiptavini sína yfir 800 félög, þar af um 40 fyrirtæki í orkugeiranum. Bankaráð Landsbankans ákvað nýverið að leggja enn frekari áherslu á þetta svið fjármögnunar, eins og kynnt var á ráðstefnu á vegum Kepler / Landsbanka í París á dögunum.
Landsvirkjun hefur á undanförnum áratugum verið í fararbroddi í uppbyggingu á raforkukerfi Íslands og er helsti raforkuframleiðandi landsins. Fyrirtækið hefur í mörg ár unnið jafnhliða að uppbyggingu og endurbótum á raforkukerfum í öðrum löndum. Má þar nefna þátttöku í franska félaginu Hecla sem vinnur að úttekt og endurbótum á háspennulínukerfi frönsku rafveitnanna. Einnig er Landsvirkjun þátttakandi í fyrirtækinu Sipenco í Sviss sem annast endurbætur á vatnsaflsvirkjunum þar í landi.
Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans segir eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku eiga eftir að aukast verulega á næstu árum. Hann telur tækifæri fólgin í því fyrir Landsbankann að sameina í HydroKraft Invest fjármálaþekkingu bankans og reynslu Landsvirkjunar í rekstri og byggingu vatnsaflsvirkjana og orkukerfa.
Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður Landsvirkjunar segist telja að samstarf við Landsbankann, sem býr yfir sérþekkingu á fjárfestingum og atvinnurekstri í Evrópu, styrki fyrirtækið verulega í útrás með þá þekkingu og reynslu á sviði orkumála sem Landsvirkjun býr yfir og segir félagið eiga fullt erindi á alþjóðavettvang.
Áform Landsbankans og Landsvirkjunar lofa góðu. Það er allt á fleygiferð í þessum orkubransa og við Íslendingar eigum frábær tækifæri sem felast í að tengja saman þekkinguna úr opinberu fyrirtækjunum og fjármagnið úr einkageiranum. Í slíkri samvinnu hlýtur þó þess að vera krafist að bisnisskallarnir sýni því ákveðna virðingu að samstarfsaðilar þeirra lúti aðeins öðrum lögmálum en þegar ísbúð er opnuð. Opinber fyrirtæki eiga að lúta lýðræðinu og velja sér samstarfsaðila sem geta unnið sín verk í sátt við það.
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home