þriðjudagur, janúar 29, 2008

„Nótt var þá farljós“ - Egils saga revisited

Lauk í gær við Egils sögu - það snilldarverk mesta. Það eru liðin 10 ár frá síðustu fundum okkar Egils og var gaman að rifja upp hreystiverk þessa kappa og áa hans. Mhttp://www.blogger.com/img/gl.link.gifeðal þess sem ég var búinn að gleyma var: Skalla-Grímur, faðir Egils, felur silfur sitt áður en hann deyr - rétt eins og Egill síðar. Hinn ágjarni Egill er að vonum ósáttur og setur Skalla-Grím í haug sinn með hesti, vopnum og smíðitólum. „Ekki er þess getið að lausafé væri látið í hauginn“. Snilld.
Í mínum huga hafði fennt yfir það hversu fyndin bókin er og full með kolsvörtum frásögum af ofbeldi Egils, til dæmis þegar þeir eru að drepa einhverja Fríslendinga og elta hóp af þeim. Hópurinn kemst yfir skurð á brú nokkurri, en fjarlægir síðan brúna. Egill og þeir koma þar að og í æsingi sínum hoppar Egill yfir skurðinn, en félagar hans komast ekki yfir. Er þá Egill einn á móti ellefu Fríslendingum. Og drepur þá að sjálfsögðu.
Einnig var gaman að rifja upp ferðalög Egils, hann herjar á heiminn allan, Noreg, Svíþjóð, Þýskaland, Holland og Belgíu. Hann ílengist í Lundúnum og tekur þátt í sögulegum bardaga með Englakonungi, þar sem Bretland var sameinað í fyrsta skipti. Bardaginn, sem í Egilssögu á sérstað við ána Vínu, er kallaður the Battle of Brunanburh í enskri sagnfræði, en nákvæm staðsetning er ókunn. Mér dettur í hug að nafnið Vína og Vínaheiði gætu verið dregin af staðarheitinu Winchester, þótt bardaginn sjálfur hafi farið fram mun norðar en sú borg er.
Endalokin eru sorgleg fyrir Egil, því hann hamast alla ævina við að draga að sér silfur, svíkur föður sinn og kætist þegar hann fær fé fyrir fall bróður síns auk þess sem hann verður ellidauður hjá bróðurdóttur sinni í Mosfellssveit, meðan Arinbirni vini hans, sem umber vitleysisganginn í honum, hlotnast sá heiður að falla í orrustu með konungi sínum.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home