fimmtudagur, janúar 24, 2008

Borgarstjórnarfundur

Leit við á pölllum Ráðhússins við upphaf borgarstjórnarfundar í dag. Merkilegt að sjá hversu margir höfðu safnast saman í húsinu og komust miklu færri á pallana en vildu. Þar af leiðir að unga fólkið sem var með mótmæli fyrir utan húsið fyrir fundinn komst fæst inn á pallana sjálfa. En það er ljóst að mörgum er nóg boðið af þessu valdabrölti nýja meirihlutans og líkar ekki þau vinnubrögð sem viðhöfð voru. Könnun Fréttablaðsins endurspeglar þetta - F+D hafa 25% stuðning og Ólafur 5% sem borgarstjóri. Líklega minnsta approval rating í sögunni.

Sjallar segja að þetta rugl sem boðið er upp á sé sama aðferð og felldi gamla meirihlutann. Það er í grundvallaratriðum rangt því þá flúði Björn Ingi óstarfhæfan meirihluta og fékk minni völd í staðinn. Ólafur rýfur meirihlutasamstarf til að tryggja sjálfum sér meiri vegtyllur í 14 mánuði. Af einhverjum ástæðum tekur þá við Vilhjálmur Þ., sem segir að þetta samstarf snúist alls ekki um völd og stóla.

En hvað um það. Lífið heldur áfram. Dagur getur borið höfuðið hátt og kemur sterkur út úr þessu. Á ákveðinn hátt eru umskiptin í borginni persónuleg vonbrigði fyrir Dag því mikill vinskapur hefur verið með tengdafjölskyldu hans og fjölskyldu Ólafs F. í áratugi.

Fróðlegt verður að sjá hvernig nýr meirihluti fer af stað. Hvað þarf að borga fyrir húsin á Laugavegi? Hvað verður um nefndina sem er að kafa ofan í REI?

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home