þriðjudagur, september 23, 2008

Ferðaskýrsla til Egils Helgasonar


Jú allt gekk heldur betur vel og takk fyrir góða leiðsögn. Skýrsla er svohljóðandi:

Við byrjuðum á að fljúga til Krítar og sigldum til Santorini. Mér fannst litið koma til Krítar við fyrstu sýn enda var ég lasinn og við byrjuðum á vondu hóteli í Hanía - við hliðina á einhverjum unglingaklúbbi þar sem vespurnar voru þandar frá miðnætti til morguns. Í Heraklion skoðuðum við Knossos og vorum reyndar bara ágætlega ánægð með þá borg, róleg og létt stemmning, þótt Hania sé fallegri.

Santorini var ósköp snotur en ég veit aðra eldfjalleyju sem er það líka stundum.

Brúðkaupsferðar-slökun hófst fyrir alvöru á sundlaugarbakka Aegalis hótelsins á Amorgos. Skoðuðum þó eyjuna eitthvað, þorpin, klaustrið og fleira og snorkluðum í tærum sjó. Horfðum á Big Blue á hótelinu - þá vondu mynd sem þarna var tekin.

Svo fórum við til Folegandros sem þú kannast lauslega við. Þar notuðum við ströndina óspart. Gistum á Kallisti hótelinu. Magnaðar strendur.

Næsti viðkomustaður var Mykonos, þá var krónan farin að gefa verulega eftir og peningaplokkið þar var því meira pirrandi en ella. Vorum á skemmtilega ódýru hóteli þó - hálfgerðu gistiheimili - hjá almennilegasta Grikkjanum sem við hittum í allri ferðinni.

Svo sigldum við til Syros og það var vel þegið að fá smá-borgarstemmningu. Mér fannst Ermopolis frábær, fórum upp á Ana Syros í leigubíl og gengum út um allt, skoðuðum kirkjurnar og fleira. Misstum reyndar alveg af litlu Scala óperunni, var búinn að gleyma að hún væri þarna.

Þrammið hélt áfram í Aþenu þar sem við skoðuðum rústir fyrir allan peninginn. Vorum þar í fimm daga. Aþena er ágæt en stenst ekki samanburð við Istanbúl að mínu mati. Sagan og töfrarnir eru áþreifanlegri í Istanbúl, en þar vorum við í fyrra.

Svo endaði þetta með þremur yndislegum dögum í Hania, þar sem við lágum m.a. á frábærri strönd í göngufæri frá hótelinu okkar við feneysku höfnina.

Bestu hótelin á Krít: Hótel Amphora í Hania og Hótel Atrion í Heraklio (100 m. frá hótel Kastro (sömu eigendur?), nýuppgerð herbergi, besta morgunverðarhlaðborð sem ég hef nokkru sinni séð á hóteli, m.a. alls konar jógúrt og val um egg soðin í 7 mín eða 11 mín. Skýringarseðill með hverjum rétti). Varist hótel Kriti (Hotel Creepy) í Hania.

Ágætt hótel á Santorini er Astir Thera, ekki dýrt en aðeins út úr, 5 mín gangur í miðbæ. Súpermarkaður rétt hjá til að fylla á kælinn.

Hótel á Amorgos og Folegandros þekkir þú. Kallisti var á mjög góðu verði m.v. önnur hótel en staðsetning ekki alveg eins frábær og hjá sumum öðrum.

Ódýrt hótel á Mykonos heitir Lefteris en það er...eh...ódýrt.

Gott hótel á Syros er Hermes, rótgróið eðalhótel en ekki svo dýrt við hafnarbakkann.

Í Aþenu vorum við á hóteli sem heitir Art Gallery. Það er ágætur kostur, 'hinum megin' við Akropolis en rétt hjá metrostöð sem gerir alla borgarkönnunina auðveldari - tókum líka t.d. metró mjög auðveldlega frá Pireus á hótelið og frá hóteli út á flugvöll fyrir brot af því sem leigubíll kostar.

Matur féll ekkert sérstaklega í kramið - svolítið einhæft nema náttúrlega í Aþenu.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

1 Comments:

Blogger Hildur Lilliendahl said...

Guð fokk almáttugur hvað þetta var leiðinleg færsla.

4:17 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home