miðvikudagur, október 15, 2008

Enn léttir Steinn manni lífið

Hvort sem menn áfellast íslensk eða bresk stjórnvöld fyrir þau ýmsu áföll sem yfir oss dynja þá má ávallt finna vel orta hnútasvipu í skáldskap Steins Steinarrs. Hér eru dæmi:

Eir

Jón Sigurðsson forseti, standmynd sem steypt er í eir,
og stjarna sem vökul á bládjúpum kvöldhimni skín.
Í sölnuðu grasinu þýtur hinn hvíslandi þeyr:
Ó, þú, sem einn sólbjartan dag varst hamingja mín.

Ó, herra, sem sendir oss spámenn og spekingafans,
og spanskgrænu heimsins þvoðir af volaðri sál.
Ég hef legið á gægjum við ljóra hins nýríka manns,
og látið mig dreyma hið fánýta veraldarprjál.

Eitt þögult og dularfullt hús stendur andspænis oss,
og enginn veit lengur til hvers það var forðum reist.
En nafnlausir menn, eins og nýkeypt afsláttarhross,
standa náttlangt á verði svo það geti sjálfu sér treyst.

Og nótt legst yfir hið sorgmædda sjálfstæði vort.
Úr saltbrauðsleik þessa heims er ég kominn til þín.
Ég að mitt fegursta ljóð hefur annar ort,
og aldrei framar mun dagurinn koma til mín.

Jón Sigurðsson, forseti, standmynd sem steypt er í eir,
hér stöndum við saman, í myrkrinu, báðir tveir.



Imperium Brittannicum

Þín sekt er uppvís, afbrot mörg og stór
og enginn kom að verja málstað þinn.,
ó, græna jörð, þar sem Shakespeare forðum fór
til fundar við hinn leynda ástvin sinn.

Þú brennur upp, þér gefast engin grið,
og geigvænt bál þú hefur öðrum kynt.
Ó, lát þér hægt, þótt lánist stundarbið.
Að lokum borgast allt í sömu mynt.

Og jafnvel þótt á heimsins nyrstu höf
þú næðir þrælataki á heimskum lýð,
það var til einskis, veldur stuttri töf.
Það vinnur aldrei neinn sitt dauðastríð.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home