Sovét-Ísland komið
Á þetta kvæði ekki ágætlega við í dag?
Sovét-Ísland,
óskalandið,
- hvenær kemur þú?
Er nóttin ekki orðin nógu löng,
þögnin nógu þung,
þorstinn nógu sár,
hungrið nógu hræðilegt,
hatrið nógu grimmt?
Hvenær...?
Hvenær kemurðu, lýðviljans land,
með ljóma strætanna,
hljómfall vélanna
blóm og söng?
Hvenær kenurðu
með kraft vitsins,
eld áhugans,
innileik bróðurþelsins?
Hvenær? Hvenær?
Vér þráum þig í einrúmi
á andvökunóttum.
þegar blóð vort rennur hægt, hægt
út í ystu myrkur
og allt er orðið hljótt,
- svo dauðahljótt,
að hvísl vorrar þjáningar
bergmálar
sem harmþrungin hljómkviða:
Hvenær? Hvenær?
Vér þráum þig, land lífsins,
- ljósblik hækkandi menningar,
samönn sólskinsdagsins,
samnautn lognmildra tunglskinskvelda,
Vér þráum að skapa
skip þín,
borgir þínar,
list þína...
Vér þráum starfið,
þráum hvíldina,
í þakklátum. öruggum faðmi þínum.
Eldgamla Ísafold!
Ung varstu forðum,
fjallkonan fríð!
Viltu ekki offra þínum
ellibelg
á altari framtíðarinnar?
Viltu ekki umbreyta
í æsku
öllu hinu þreytta og sjúka og vonlausa?
Viltu ekki nýtt fólk,
nýtt líf,
nýtt vor um strendur þínar, dali þína?
Viltu ekki, að vargöldin harða,
vindöldin kalda,
þokist fjær og fjær?
...En hvort sem þú vilt eða ekki,
kemur það nær og nær,
þetta, sem grætur blóði,
þangað til upp úr rauðum sporunum
grær
líf, sem ljómar og hlær.-
Þó það kæmi ekki í gær,
þó það komi ekki í dag,
það kemur - - -
Á morgun?
Hvenær? Hvenær?
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home