fimmtudagur, október 21, 2004

Árás á Röflið?

Bloggaði ekkert í gær því þá ætlaði ég að fjalla um leikina í Meistaradeildinni frá deginum áður, þriðjudegi. Skemmst er frá því að segja að ég horfði á tvo markalausa leiki í röð og slæmu fréttirnar voru þær að Liverpool virtust frekar betri en Man. Utd. þótt slík fullyrðing sé auðvitað helgispjöll, fullkomið contradiction in terms og hvorki stafanna né lestursins virði.

Að vísu verður maður að passa sig á hvað maður segir, hver veit nema einhverjir sterabólgubavíanar ráðist inn á höfuðstöðvar Röflsins og leiti að ritstjóranum með illt í huga. En slíkt er auðvitað óhugsandi í lýðræðisþjóðfélagi. Ef fjölmiðlar, eins og sá sem þú ert að lesa, eru fjórða valdið þá mundi slík innrás á svæði starfsfólks fjölmiðils jafngilda því að einhverjir hatursmenn Jóns Steinars mundu ráðast inn í hæstarétt, úrillir öryrkjar reyndu að aka niður Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra eða æfir stuðningsmenn Ólafs Ragnars tækju Halldór Blöndal hálstaki og hrintu honum í gólf alþingissalarins. Mundu slík atvik ekki kalla á það að þjóðin horfist í augu við sjálfa sig og spyrði: Hvert í fjandanum erum við komin?

Auðvitað er ég að tala um innrásina í DV. Þessari árás er augljóslega ætlað að hræða blaðið frá því að fjalla um ákveðin málefni, til að draga huluna aftur yfir þau skuggalegu verk sem blaðamenn DV hafa dregið fram í dagsljósið að undanförnu. Jafn skammarleg og þessi innrás er þá minnir hún mig samt á árásirnar sem dundu á Fréttablaðinu fyrir nokkrum misserum, árásum sem blaðið svaraði á þann eina hátt sem skiptir máli, með því að halda sínu striki og vera síbatnandi bleðill. Ég vona að DV haldi sínu striki, þetta hefur alla möguleika til að verða gott, og nauðsynlegt, blað, ef þeim tekst að slípa af helstu agnúana.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home