miðvikudagur, mars 02, 2005

Pass á Passat

Bíllausi mánuðurinn er hafinn. Í dag skilaði ég inn bílnum sem ég hafði í gömlu vinnunni. Þar með hófst nýtt tímabil þar sem við ætlum að prófa að lifa af án einkabíls. Við reiknum með að gefa þessari tilraun í það minnsta mánuð. Kemur í ljós hvort við höldum þetta út. Passatinn var góður bíll, full stór, en afar góður. Ég mæli með Passat. En nú er ég laus við kvikindið og legg allt mitt traust á hægri, vinstri, strætó og Hreyfil-Bæjarleiðir. Á morgun fæ ég svo lánaðan bíl hjá Pabba í nokkra daga meðan þau renna sér niður ítalskar brekkur í átt að bjór og grappa.

Svo opnar Ólafur Ragnar bráðum nýju skíðalyftuna í Bláfjöllum. Þá verður nú aldeilis gaman að skella sér á skíði, hoppa upp í bílinn og bruna í Bláfj.........Hoppa upp í rútu og......Hringja á bíl og........Fjandakornið.

Nei góðir lesendur. Bíllausi mánuðurinn er ekkert grín. Þessu er tekið af mikilli alvöru og líklega mun öllum peningnum sem sparast verða eytt í einhvern klikksturlaðan sportbíl þann 1. apríl. Maður sparar svosem alveg nóga peninga til að bjóða konunnni á Stuðmannaballið í Konunglega Albertsinnganginum í Lundúnum. Fun fun fun fun, íslenskt fönn. Ekki slæmt.

Var að heyra góða hugmynd í dag, að byrja að framleiða sjónvarpsþætti þar sem búið væri að skrifa samtölin daginn áður eða eitthvað svo það væri ekki alveg svona mikið bull og vitleysa í gangi. Ég held ég sé raunverulega farinn að hata raunveruleikaþætti. Í gær var boðið upp á fólk að æla paprikusúpu annars vegar og hins vegar spikfeitt fólk að troða hvort öðru inn um glugga á bíl. Reyndar var líka boðið upp á mann í súrmjólkurbaði, sem var hilarious. Sami maður reyndi svo að hoppa af trampólíni ofan í ruslafötu.

Ég á síðasta Ørninn á spólu, ætla að treina mér hann örlítið lengur. Tók áðan á leigu spóluna The Corporation. Ætli ég smelli henni ekki snöggvast í tækið.

Hvenær ætli ég þurfi að vakna til að ná því að labba í vinnuna? Let's find out!

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home