föstudagur, febrúar 18, 2005

Alltaf fjör að blogga

Eftir að ég skipti um vinnustað kemur margt skemmtilegt í ljós. T.d. er ég í mestu vandræðum með að blogga því ég kemst ekki sjálfvirkt inn á mitt svæði á blogspottinum, því ég er kominn með nýja tölvu og svoleiðis. Ekki bætir úr skák að mitt bloggspott hefur einhvern veginn stillst þannig að allur texti er með kínversku myndletri og Mandarín-kunnáttu minni hefur hrakað nógu verulega til þess að ég finn ekki stillingarnar til að breyta þessu. Lose-lose situation. Heiti því þó að láta ekki bloggfall verða of oft.

Skemmtileg helgi fram undan. Food and fun ræður ferðinni, í kvöld er það Sjávarkjallarinn og á morgun Grillið. Þetta hljómar eins og mikið lúxuslíf, en þið getið alveg stundað rólegan mysing. Þetta er löngu planað og fjárhagsáætlanir mánaðarins taka mið af þessu, með niðurskurði annars staðar, t.d. í heilbrigðis og menntamálum.

Einnig stendur yfir Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar sem er gott framtak. Einhvern veginn hefur þessi hátíð þó ávallt fallið milli skips og bryggju hjá mér, eina sem ég man eftir er að einu sinni skreyttu duglegir Listaháskólakrakkar brúna yfir Tjörnina með flottu bláu ljósi sem stundum er notað enn í dag. Líklega er erfitt að búa til virkilega púðurtunnu í menningarlífinu á þessum tíma árs, allir vilja frekar vera inni (og borða fimmréttað á fimmþúsundkall?) og svo eru örugglega engir peningar settir í þetta af hálfu borgarinnar. Hún skapar bara "umgjörðina" og svo borgar hver fyrir sig, eins og á Menningarnótt. Vetrarhátíðin ætti þó að vera tilvalin fyrir Orkuveituna að gera eitthvað skemmtilegt til að gleðja almúgan á kaldasta hluta ársins. Kannski er Alfreð með einhvern gjörning, etv. á bókhaldshæðinni í nýju Orkuhöllinni. Hver veit?

Góða helgi, kæru lesendur, lifið heil!

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home