miðvikudagur, mars 09, 2005

Stóra fréttastjóramálið

Það eru nokkrar leiðir til að tala um stóra fréttastjóramálið. Hefðbundna leiðin er sú að segja að hér sé klárlega um pólitísk afskipti að ræða, fulltrúar Sjalla og Frammara í útvarpsráði hafi komið sér saman um að mæla með manni sem sé þeim flokkum þóknanlegur. Þar með sé gengið gegn því sjónarmiði að fréttastjóri Útvarps eigi að hafa áralanga, helst áratuga, reynslu af fréttamennsku og eigi að þekkja innviði stofnunarinnar eins og eigin lófa. Flestir munu væntanlega ræða málið á þessum nótum og finnst harkalega gengið framhjá mönnum á borð við Óðin Jónsson, sem sameinar menntun, fréttamennsku- og stjórnunarreynslu auk þess sem hann hefur orðið uppvís að töluverðum metnaði fyrir hönd fréttastofunnar.

Annað sjónarmið er það að það skuli einmitt skipulega leitað að öðrum kandídötum, fersku fólki, sem væri til þess fallið að hrista upp í liðinu á RÚV. Og væri ekki ungur, vel menntaður maður með fjölbreytta reynslu sem hefur búið lengi í útlöndum eins og Auðun Georg Ólafsson akkúrat sá náungi? Færri munu ræða málið á þessum grundvelli.

En hvern á að ráða?

Ég held að hér vegi þungt að menn vilja líklega ekkert breyta neitt miklu hjá Fréttastofu Útvarpsins. Á hún ekki einmitt að vera þessi sígilda vandaða stofnun sem hún hefur verið allt frá stofnun. Ég held að engum hugnist kollsteypur í þessum efnum. Mér finnst einhvern veginn að hingað til hafi allt verið gert rétt þar, þar er hæfileg blanda af greddu og virðingu fyrir umfjöllunarefninu og fullt af mjög kláru fólki sem hefur markað sér sess í eyrum þjóðarinnar. Er þetta akkúrat sá bátur sem menn eiga að rugga?

Mín niðurstaða: Það getur verið gott að fá ferskt blóð inn á fréttastofuna en það þarf ekki að græða í hana nýtt hjarta.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home