miðvikudagur, október 12, 2005

Ríkislögreglu-slóri

Nú ættu embættismenn Ríkislögreglustjóra að taka á sig rögg og dúndra fram ákærum í olíusvindlinu til að afsanna það að Kristinn Björnsson njóti þess á einhvern hátt að vera æskuvinur Haraldar Johannesen. Mannlíf segir að það hafi liðið þrír dagar frá því að Jón Gerald mætti á svæði þar til Tryggvi Jónsson, þáverandi forstjóri þurfti að dúsa í fangelsi yfir nótt. Nú er liðið meira en ár frá því að olíuskýrslan var lögð fram, var réttlætinu kannski bara alveg fullnægt þegar Þórólfur sagði af sér í byrjun nóvember í fyrra?!? Nú er kominn tími til að hætta að slóra og koma í veg fyrir að sakir fyrnist. Eða skiptir kannski meira máli hverjir léku sér saman á Reynimelnum fyrir fjörutíu árum?

Þarf sjálfur að gera svo margt, en enginn tími til neins. Lentum í svaka hasar í gær þegar ég ætlaði að tappa lofti af ofninum í svefnherberginu. Skrúfan hrökk úr og vatnið gusaðist út um allt. Gríðarlegt vatnstjón var í uppsiglingu því ekki tókst að koma skrúfunni á sinn stað og stoppa gusandi sjóðheitt vatnið. Sem betur fer dugði að skrúfa fyrir og smám saman minnkaði þrýstingurinn þannig að hægt var að þjösna skrúfunni á sinn stað. Akkúrat þá mætti píparinn á svæðið og lét sér fátt um finnast. Benti þó á að ofnarnir okkar væru vitlaust tengdir og þess vegna sé svo ári kalt í íbúðinni. Þurfum að skoða þetta nánar.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home