sunnudagur, október 15, 2006

Gerðarsafn hápunktur helgarinnar

Geta listamenn breytt heiminum? Já, segir Ann Beam, ekkja listamannsins Carls Beam. Hún tók reyndar svo djúpt í árinni að segja að Carl Beam hefði gert það sama fyrir frumbyggja Norður-Ameríku og Michaelangelo gerði fyrir Ítala. Hann gaf þeim sjálfsmynd, spegil þar sem þeir gátu séð sig í samhengi þjóðanna og samhengi menningarinnar.

Carl Beam fæddist árið 1943 en lést í fyrra. Hann var Ojibwe indjáni og bjó á verndarsvæðum þjóðar sinnar. Hlaut hefðbundna vestræna listmenntun en sótti sér efnivið í menningu þjóðar sinnar. Eftir hann liggja mögnuð verk þar sem hann tengir menningararf indjána við ímyndir vestrænnar menningu á húmorískan hátt. Dæmi um þetta er verkið hér fyrir neðan.



Myndin sýnir þá Sitjandi tarf og Albert Einstein, en Tarfur var veginn þegar Albert var um 10 ára gamall.

Önnur spurning: Hvaða erindi á list inúíta Kanada við okkur í dag? Þessi hugsun leitaði á mig í Gerðarsafni um helgina. Fyrir utan ægifagra skúlptúra og margslungið handverk þá felst svarið líklega í þeirri heimsmynd sem birtist í þessum verkum. Þau sýna okkur inn í heim þar sem maðurinn er ekki herra náttúrunnar. Í þessum listaverkum sem unnin eru af afkomendum flökkuþjóða sem þurftu að laga sig að mismunandi landsvæðum sést að hið mannlega rennur saman við seiðmagnaða náttúru og verður ekki frá henni skilið. Verkin sýna djúpa virðingu fyrir náttúrunni og gjöfum hennar sem eru ágætis skilaboð til Íslendinga í dag. Nútímalist inúítanna er að mörgu leyti enn ókunn á 'Vesturlöndum', en vegur þeirra fer vaxandi og má hrósa Gerðarsafni fyrir að sýna þetta frumkvæði að fá þessa dýrgripi hingað. Sem dæmi um verðmæti þessara verka er að eitt minnsta verkið á sýningunni, ca 4 sm há, útskorin mynd af ýlfrandi skógarbirni, er metin á sirka tvöþúsund kanadadollara, um 120.000 íslenskar krónur.

Ég var semsagt í Gerðarsafni um helgina. Hvet alla til að sjá það sem þar ber fyrir augu.

Annars var helgin róleg og góð. Ákveðin verkefni þokast í rétta átt, landslýð til heilla og skemmtunar um jólin.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home