fimmtudagur, janúar 17, 2008

Kiljan

Sigurður Kári hrósar Agli og Kiljunni í pistli í dag:
Það er full ástæða til að hrósa Agli Helgasyni fyrir bókmenntaþáttinn Kiljan sem er á dagskrá Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöldum. Þátturinn er sannarlega hvalreki á fjörur þeirra sem áhuga hafa á bókmenntum hvers konar.

Mér finnst umfjöllun Egils um bókmenntir í þættinum að mörgu leyti nýstárleg og þess eðlis að hún eykur áhuga áhorfenda á því að kynna sér verk þeirra höfunda sem fjallað er um hverju sinni. Val á viðmælendum er fjölbreytt og skemmtilegt sem gefur þættinum gott og áhugavert yfirbragð.

Það kemur hins vegar skemmtilega á óvart að Siggi er ekki að hrósa Agli fyrir að fá prófessor Hannes í þáttinn að fjalla um Davíðsbókina heldur fyrir umfjöllun um Vilhjálm frá Skáholti. Fer vel á því að þess ágæta skálds sé minnst og erum við SK þar sammála. Ég man eftir því að í gamla daga þegar ég gegndi virðingarstöðunni afleysingaþulur hjá Útvarpinu (það er ekkert til sem heitir Rás 1) varð mér einu sinni á að tala um Vilhjálm frá Skálholti og fékk bágt fyrir hjá nokkrum hlustendum sem hringdu inn leiðréttingar og var mikið niðri fyrir.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home