Hvað gerðist - 2 skýringar:
Skýring sjálfstæðismanna:
Reglur voru settar í Bandaríkjunum sem bönnuðu íbúðalánasjóðum að mismuna fólki eftir litarafti og öðrum ástæðum. Því fengu fleiri lán en gátu hugsanlega borgað. Einhverjir notuðu þessi skuldabréf í vafninga sem gengu kaupum og sölum eins og tifandi tímasprengja. Enginn gat samt séð fjármálakreppuna fyrir. Hún er ekki Davíð Oddssyni að kenna. Hún er fellibylur. Ástæðan til þess að Ísland verður sérstaklega illa úti er sú að bankarnir voru allt of stórir og skuldsettir, vegna leikreglna EES samningsins. Við höfum sömu reglur og önnur lönd EES og sömu bindiskyldu og í EES. Eini maðurinn sem varaði við ofvexti bankanna er Davíð Oddsson. Jón Ásgeir brást trausti þjóðarinnar og reið of geyst studdur af klappliðinu: Ingibjörgu Sólrúnu og Ólafi Ragnari. Dorrit spurði af hverju borðar fólkið ekki kökur og krónan mun hjálpa okkur í uppsveiflunni sem er handan við hornið.
Skýringar annarra
Forhertir kapítalistar ófu áhættusöm lán inn í pakka með ágætis lánum þannig að þegar lélegu lánin brugðust fór allt galleríið á hliðina, því fjármálakerfið var orðið spillt, áhættufíkið og yfir sig skuldsett. Fjármálakreppuna hefði auðveldlega mátt sjá fyrir og jafnvel stöðva ef leiðtogar Bandaríkjanna hefðu sett, og fylgt eftir, skynsamlegum reglum. Ástæðan til þess að Ísland verður sérstaklega illa úti er sú að bankarnir voru allt of skuldsettir. Þeir þrýstu á Seðlabankann til að lækka bindiskyldu niður í það sem er á EES svæðinu, á sama tíma og gríðarlegur vöxtur þeirra hefði átt að kalla á aukna bindiskyldu. Þorvaldur Gylfason og fleiri hagfræðingar vöruðu Davíð Oddsson og Seðlabankann ítrekað við þessu varnarleysi. Bankarnir veiktu Fjármálaeftirlitið kerfisbundið með því að ræna starfsfólki þaðan og sendu góðar rauðvínsflöskur á tyllidögum. EES reglum var ekki fylgt eftir af sama styrk og tíðkast erlendis, m.a. vegna fjárskorts. Stjórnvöld voru ekki að flýta sér að loka ábyrgðum á Icesave, etv. vegna skatttekna, þau mistök munu reynast okkur dýr. Auðmennirnir brugðust og eru ennþá svakalega ríkir og þjóðin situr eftir með skuldirnar. Pólitískt skipaði seðlabankastjórinn er rúinn trausti austan hafs og vestan og alls staðar þar á milli eftir bommertur í aðdraganda, hápunkti og eftirmála bankahrunsins. Við þurfum að snúa bökum saman og koma íslenskum heimilum í öruggara skjól: IMF, ESB.
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home