miðvikudagur, mars 09, 2005

Blágrænt hjarta grætt í Fréttastofu Útvarpsins?

Stóra stjóramálið á fréttastofu Útvarpsins hefur aldeilis tekið óvænta stefnu. Ég hélt alltaf að það væri grín að framsóknarmenn „ættu“ þann stól, enda gersamlega fáránleg tilhugsun að flokkur með sama styrk og rauðvínsflaska geti valsað inn í þennan fína hóp sem fréttastofan er og skipað einum að setjast og hinum að standa. (Hugmynd að bók: Helmingaskiptin - (XB+XD)/2. Hálfvitagangur í sögu þjóðar.). Reyndar hefur enginn getað sýnt fram á að nýi fréttastjórinn sé framsóknarmaður, og ekki foreldrar hans. Það þurfti að fara upp í afa gamla. Reyndar held ég að það, út af fyrir sig, sé glæpur sem næstum allir séu sekir um. Að eiga afa eða ömmu í Framsóknarflokknum. Færri eiga þar þó vini.......... Jæja. Nú eru lesendur farnir að hugsa um skútu.

Update
Nú hafa grásprengdu fréttamennirnir sem 34 ára gamli markaðsstjórinn á að segja fyrir verkum skorað á hann að hafna starfinu. Hann gæti svosem gert það. Ég hef fyrir satt að þetta sé mjög klár og skynugur strákur en vont er að mæta til vinnu með svona áskorun á bakinu. Maður getur svo sem reynt að setja sig í hans spor. Sjáum hvað setur. Mig grunar nú helst að hann taki slaginn og muni síðan sanna sig ágætlega í starfi. En ég get alveg ímyndað mér að helstu harðhausarnir á fréttastofunni muni ekki láta bjóða sér þetta, heldur leiti annað. Á Talstöðina, Fréttablaðið, Stöð 2 jafnvel. Jájá. Þetta lagast.

Hvar vinna hinir?

Kvót dagsins
„Ég á marga vini. Einn þeirra vinnur þar sem hann vinnur“.
Auðun Georg Ólafsson, fréttastjóri í viðtali í Sjónvarpinu í kvöld.

PS
Athyglisverð auglýsing í Fréttablaðinu í dag. Læt mig hafa það að pikka hana inn.

ÓSÓTTAR BÚSLÓÐIR
Eigendur búslóða, sem leigðu geymslupláss hjá Baldri Þorleifssyni að Skeifunni 5, Reykjavík, eru hér með hvattir tilað sækja muni sína sem allra fyrst og eigi síðar en 10. apríl 2005.
Búslóðirnar hafa verið fluttar í annað húsnæði og eru hlutaðeigandi beðnir að hafa samband við Eik fasteignafélag hf. vegna afhendingar þeirra.
Eik fasteignafélag hf. ber ekki ábyrgð á búslóðunum og mun ekki bæta hugsanlegt tjón þeirra.
Eik fasteignafélag hf. áskilur sér allan rétt til að láta farga þeim munum sem ekki verða sóttir innan framangreinds frests eða láta selja þá fyrir geymslukostnaði.

Hér er athyglisvert mál í uppsiglingu. Fúlt að koma heim úr námi í sumar og ætla að tékka á búslóðinni hjá Baldri í Skeifunni og þá er EIK fasteignafélag hf. búið að farga öðrum helmingnum og selja hinn...

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home