þriðjudagur, september 27, 2005

Davíð hættur

Góðu fréttirnar eru þær að Davíð Oddsson er hættur. Vondu fréttirnar eru þær að Geir Haarde kom í staðinn. Þær eru ekki margar kosningarnar sem Davíð Oddsson tapaði en þó var hann aðeins farinn að fölna undir lokin, ekki lengur 1. þingmaður Reykvíkinga og svo framvegis. Ég óska Davíð Oddssyni góðs gengis í baráttunni við verðbólguna í Seðlabankanum.



Í gær bárust þær gleðifréttir að fjölgað hafði í genginu á Óðinsgötunni. Eru þeim og þeirra fólki hér með færðar bestu hamingjuóskir í heimi. Búist er við að Heiða stórasystir sendi frá sér yfirlýsingu um málið í Morgunblaðinu á morgun.

Mun ekki horfa á íslenska piparsveininn á Skjá einum. Átti reyndar ekki von á því svona fyrirfram en sá brot úr þessum óbjóði áðan. En svona er raunveruleikinn.

Mér finnst reyndar gæta mikils misskilnings hjá gagnrýnendum raunveruleikasjónvarps. Þar eru yfirleitt hámenntaðir sérfræðingar á ferðinni sem þykjast þekkja raunveruleikann betur en svo að þeir þekki hann þegar hann birtist á skjánum í raunveruleikaþáttum. Það er út af fyrir sig rétt að raunveruleikinn sést ekki í sjónvarpinu, vegna þess að raunveruleikinn (eða raunveruleikurinn) er ekki einn, heldur ótal margir. Það sem er slæmt við raunveruleikaþættina svokölluðu er að í þeim er verið að velta sér upp úr öllu því lægsta og ómerkilegasta sem mannskepnan hefur upp á að bjóða. Hræsni, hroki og heimska í úrvali, sjá nánar á dagskrársíðum sjónvarpsstöðvanna.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home