mánudagur, september 19, 2005

UN-interested?

Ég held að andstæðingar þess að Íslendingar sitji í Öryggisráðinu hafi unnið mikinn sigur í vikunni. Það hlýtur að vera nær ógerlegt að þjappa þjóðinni á bak við öflugt framboð hér eftir og er það fyrst og fremst vegna þess að málið er illa unnið - eða ættum við frekar að kalla það óunnið?

Enginn veit hver markmiðin eru, hvað þá að liggi fyrir áætlun um hvernig því markmiði skuli náð. Gefið hefur verið í skyn að það sé verið að kasta heilum milljarði í kokkteilboð og silkihúfusamsæti með því að sækjast eftir þessu sæti. Ég er ekki viss um að það sé rétt.

Ég er viss um að allir Íslendingar væru á móti því að setja einn milljarð í framboð til Öryggisráðsins, en ef spurningunni væri snúið við og spurt: Ertu til í að Íslendingar, ein auðugasta þjóð veraldar, auki framlög sín til þróunarmála um einn milljarð, þá væru menn eflaust ekkert afhuga því.

Þá þyrftu menn kannski líka að spyrja sig: Viltu að Íslendingar hafi stefnu í utanríkismálum eða ekki? Ég held því fram að ríkisstjórnin sé algjörlega stefnulaus, nema menn vilja vera með lágmarks viðveru í friðargæslunni. Íslenska friðargæslan er eins konar fjarvistarsönnun, svona rétt til að komast á blað. Íslendingar hafa margt að segja og mikið fram að færa.

Saga íslensks uppgangs er ekki löng. Það má til dæmis færa rök fyrir því að ég sé af annarri, jafnvel fyrstu, kynslóð Íslendinga sem ekki hefur búið í þróunarlandi. Við ættum að geta miðlað af þeirri reynslu og árangri okkar og sýnt að það er hægt að öðlast frelsi og komast í álnir á skjótan en samt friðsælan hátt.

Getur utanríkisstefna Íslendinga ekki haft þá sérstöðu að deila þessari reynslu og segja þessa sögu?

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home