mánudagur, október 23, 2006

Tvær bækur, tveir leikir, þrjú leikrit

Sá merkilegt leikrit um helgina. Nei, ég er ekki að tala um verkið 'Samstaða' sem sýnt var í Valhöll, né heldur verkið 'Virkjunin' sem sýnt var á Hellisheiði við húsfylli. Báðar þær sýningar hafa fengið nægt rými í fjölmiðlum.

Ég sá Pétur Gaut.

Pétur Gautur fjallar um samnefndann mann sem í ævilok lítur yfir farinn veg og leitar svara við því hvort lífi hans var vel eða illa varið. Hann var ekki hann sjálfur. Hann lét stjórnast af beyg sem fékk hann til að sigla framhjá hverri áskorun í stað þess að takast á við hana. Sýningin er stórkostleg að mínu mati. Vel leikin (Ólafía Hrönn 5 stjörnur) og veisla fyrir augað. Þessi sýning verðskuldar öll þau verðlaun sem hún hefur hlotið og fleiri til.

Að sýningunni lokinni var sagt að venju: „Við verðum að fara oftar í leikhús“.

Lauk við bókina 'Saturday' eftir Ian McEwan.

Bókin fjallar um einn dag í lífi taugaskurðlæknisins í Lundúnum. Kafað er í hugarheim hans (í heila heilaskurðlæknisins) og fylgst með honum takast á við óvænta atburði. Bókin gerist sama dag og mótmælin miklu voru í London gegn stríðinu í Írak. Hugtakið innrás er reyndar lykilhugtak í bókinni, og unnið með það á ýmsum stigum: innrás í land, innrás á heimili, innrás í einkalíf, innrás í líkama. Þegar skurðlæknir gerir innrás í líkamann er það til góðs, rétt eins og innrás í Írak átti að vera til góðs. Mein er fjarlægt, skurðurinn saumaður og allt í góðu lagi. Eða hvað? Það má gleyma sér í þessu, nú væri gaman að vera í skóla og skrifa ritgerð...

Vildi punkta niður líka að um daginn lauk ég við Cloud Atlas eftir David Mitchell. Það var gæðabiti, skáldsaga sem er í forminu eins og laukur þar sem lesandinn flettir hverjum kafla sögunnar ofan af þeim næsta og flakkar gegnum ólík, en samhangandi, skeið mannkynssögunnar, séð frá sjónarhóli mismunandi persóna, sem fylgjast með framþróun 'mannsandans'. Allt frá kristinboði í þrælanýlendum til frelsisbaráttu genabreytts þrælakyns í ekkert of fjarlægri framtíð. Meginþráðurinn er að sá kraftur sem drífur mannkynið áfram mun að lokum eyða því. Græðgi er góð, en þegar á öllu er á botninn hvolft þá er græðgi líka barbarismi. Og samfélag sem er reist á grunni græðginnar tortímir sjálfu sér. Barbararnir eru ekki 'at the gates' heldur 'behind the gates'. Spennandi bók, afburðavel skrifuð og stórskemmtileg. Er byrjaður á þriðju bókinni eftir Mitchell (hans fyrsta bók reyndar) en hún heitir Ghostwritten og fer mjög vel af stað. Áður var ég búinn að lesa Black Swan Green sem líka er stórkostleg. (Skemmtilegt að ein persónan úr Cloud Atlas gengur aftur í Black Swan Green).

Til að kæla þetta aðeins niður í lokin þá vil ég nefna það að í gær voru tveir fótboltaleikir og ég sá þá báða. Það má eiginlega segja að þeir kanselleri hvorn annan út, því ég var nokkuð kátur með þann fyrri en hundfúll með þann síðari. Reyndar komst ég að því að í mínum huga er Liverpool ekki lengur erkifjandi Man Utd. Ég hef miklu meira gaman af því þegar United vinnur Arsenal eða Chelsea, þá fúlu hrokagikki.

Góðar stundir

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home