miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Castro's Info

„We will call you with Castro's info. Ship. Semester@sea. Promise!

Þessi orð standa á samanbrotnum miða sem ég var að finna í veskinu mínu. Það er merkileg saga á bak við þetta sem mér finnst ég verði að rekja í örstuttu máli. Þannig var að þegar vinir mínir Stjáni og Birna voru einn vetur í Costa Rica, þá fór ég í heimsókn til þeirra í nokkrar vikur i janúar. Við Stjáni brugðum okkur til Kúbu, sem við héldum að væri ansi hlýr staður í karabíska hafinu. Raunin varð önnur, þannig að við vorum við það að krókna í stuttermaskyrtunum okkar jakkalausir.

Castro's info vísar til þess að eitt kvöldið vorum við staddir á bar, sem mig minnir að heiti Dos Hermanas í miðborg Havana. Þar fórum við mikinn í rommdrykkju og slátruðum nokkrum staupum af 15 ára gömlu rommi og borguðum útlendingaverð fyrir. Reyndar hefur Hrafn Gunnlaugsson sagt mér að á Kúbu sé aldrei til eldra romm en hálfsmánaðar, restin sé bara spurning um matarlit. Og dollara. Litlu munaði að illa færi reyndar þegar aðkomumaður kúbanskur hugðist aðstoða okkur við að tendra vindilsdrjóla, í óþökk 170 kg dyravarðar og mátti litlu muna að við yrðum í milli í þeim áflogum. Verðir laganna mættu hins vegar í skyndingu og stilltu til friðar. Hugsanlega hafði þessi uppákoma einhver áhrif til hækkunar á reikningi okkar félaganna, en sá var drýgri en við áttum von á.

Þetta kvöld hittum við nokkra amríkana, já, sem voru á einhverju bévítans skólaskipi, sem voru að djamma í miðbænum en áttu daginn eftir stefnumót við Castro. Okkur var gefinn ádráttur um að við fengjum að slást í för með hópnum og hitta kappann og voru svarnir þess eiðar og skrifaðir aftan á áðurnefndan miða (framan á miðanum stendur reyndar 'BOÐSMIÐI', en hann gildir fyrir einn á eina af sýningum Bíófélagsins 101 og bíð ég þess í ofvæni að geta notað hann)

Því miður varð reyndin sú að brandararíkjamenn reyndust ekki traustsins verðir fremur en fyrri daginn og aldrei vorum við látnir vita af stefnumótinu við Castro. Þannig að ef þið í áhöfn amerískra skólaskipsins eruð að lesa þetta, þá hafið skömm fyrir!!!

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home