þriðjudagur, júlí 03, 2007

Minni kvenna

Nú styttist í tíma árshátíða og þorrablóta. Þá er góður siður að standa á fætur og skjalla og lofa kvenkynið. Misdrukknir heiðursmenn rísa á fætur undir dagskrárliðnum ‘Minni kvennað og brestur þá á með lofræðum um kvenkynið og sem enda á kvæði eftir Matthías Jochumsson:

Fósturlandsins freyja,
fagra Vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullin tár.
Þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár.

Takið eftir því að höfundur þjóðsöngsins, þarf að biðja konuna sérstaklega um að meðtaka lof og prís. Matthías vissi nefnilega að konur eru kúnstugar skepnur sem heyra það sem þær vilja heyra og ekki sjálfgefið að þær muni hvað sem er. Í þessum pistli ætla ég að fjalla stuttlega um minni kvenna.
Sérstaða minnis kvenna rann upp fyrir mér síðasta bóndadag þegar konan mín bauð mér út að borða. Við það ljúfa tækifæri barst næsti bóndadagur þar undan í tal. Ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvað konan mín bauð mér upp á daginn þann fyrr en hún gaf mér þá vísbendingu að ég hefði borðað lambakjöt með bláberjum. Um leið varð kvöldstundin hjá Sigga Hall á Óðinsvéum árið áður ljóslifandi í huga mér. Í framhaldinu barst talið að því að konan mín mundi í hvaða fötum ég var, og ekki síður í hvaða fötum hún var sjálf í á fyrsta stefnumótinu okkar (og reyndar líka fólkið á næsta borði!). Það sem ég mundi var að við fórum á Ban Thai, fengum okkur kjúkling og það var gaman. Lykillinn að mínu minni virðist því liggja gegnum magann. En hvernig virkar minni kvenna?
Athuganir mínar benda til að helsti styrkleiki kvenheilans felist í því að muna einhverjum eitthvað. Sé stigið lítillega út af beinu brautinni og fjaðrir kvennanna ýfðar gleymist það aldrei og viðkomandi getur átt það á hættu að vera fordæmdur um aldir alda, jafnvel þótt allir aðrir hlutaðeigandi hafi lokað viðkomandi máli. Þekktasta dæmið um þetta er atburðarásin sem í gegnum tíðina hefur fengið marga konuna til að kinka samþykkjandi kolli yfir síðum Njálu:

Hann mælti til Hallgerðar: „Fá mér leppa tvo úr hári þínu og snúið þið móðir mín saman til bogastrengs mér.“
„Liggur þér nokkuð við?“ segir hún.
„Líf mitt liggur við,“ svarar hann, „því þeir munu aldrei fá mig sóttan meðan ég kem boganum við.“
„Þá skal eg nú,“ segir hún, „muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur.“

Og Gunnar er veginn. Kinnhestinn fékk Hallgerður að launum fyrir að bera á borð fyrir Gunnar matvæli sem hún hafði látið stela, en líklega var hún alveg búin að gleyma þeirri staðreynd. En kinnhestinn sjálfan mundi hún og íslenska þjóðin allar götur síðan.

Þá er konum einum lagið að muna eftir hlutum sem karlar lofa. Í huganum halda konur bókhald yfir hvert einasta handtak sem karlinn hefur sagst munu inna af hendi á heimilinu, tengja ljós, slá garðinn og svo framvegis. Þegar þetta frestast af góðum og gildum ástæðum þá er það geymt en ekki gleymt og oft minnst á það, jafnvel hvæsandi röddu, þegar síst varir. Svo sérkennilega vill til að oft koma áminningarhvæsin á sama tíma og merkilegir íþróttaviðburðir sem mætustu menn telja brýnt að sjónvarpa um gervalla heimsbyggðina í beinni útsendingu.
Móðir mín man alla afmælisdaga fyrir hönd fjölskyldunnar, sem er ekki lítið afrek því hún giftist inn í káta 10 systkina fjölskyldu sem öll hafa verið dugleg við barneignir og reyndar börnin þeirra og barnabörnin líka! Nú styttist í að afmælisdagar fjölskyldunnar verði fleiri en dagarnir í árinu. (Var mamma kannski að reyna að senda einhver skilaboð með því að fæða systur mína á afmælisdaginn hans pabba?). Svona minni er veikleiki okkar karlmanna. Til að bæta sér þetta upp velja karlarnir sér þess vegna tölvur með eins miklu geymsluminni og vinnsluminni og hægt er. Konur hafa engar áhyggjur af minninu í tölvunni heldur hvort hún passi í nýju fínu tölvutöskuna.
Til að draga saman rannsóknarniðurstöður um minni kynjanna þá virðist sem minni karlmanna virðist nýtast best til að halda utan um sem mest af gagnslausum staðreyndum. Þannig þekki ég menn sem nafngreint hvern einasta ráðherra allt til lýðveldisstofnunar og alla leikmenn í enska boltanum árið 1982. Sömu menn muna hins vegar ekki hver er gjaldkeri húsfélagsins eða hvað kílóið af ýsu kostar. Þetta er ástæðan til þess að það eru bara strákar sem keppa í Spurningakeppni framhaldsskólanna. Á sama tíma er stelpuheilinn einfaldlega upptekinn við eitthvað sem getur nýst síðar, til dæmis við að læra eitthvað sem færir þeim hærri einkunnir í skólanum.
Samt er það svo skrýtið að konur virðast nota menntun sína allt öðruvísi en karlar. Til dæmis kunna konur umferðarreglurnar miklu betur en eru karlar ekki betri bílstjórar? Hversu margar konur hafa keppt í Formúlu eitt?
Sé þetta dregið saman sýnist mér minni karla virka svipað og internetið þar sem úir og grúir af alls konar hlutum í öllum stærðum og gerðum. Minni kvenna er hins vegar skipuleg spjaldskrá þar sem sérvaldir hlutir eru punktaðir niður með nettri blokkskrift og haldið til haga, sérstaklega allt sem sýnir viðkomandi konu í fallegu ljósi. Annað gleymist. Hafðu því ekki áhyggjur kæri kvenkyns lesandi, eftir nokkrar mínútur verður þessi pistill einfaldlega ekki til!

ÞESSI PISTILL BIRTIST Í NÝJU LÍFI Í JANÚAR

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home