fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Punktur um peninga

Rætt hefur verið um myndarlegan stuðning Björgólfs við framleiðslu á leiknu sjónvarpsefni fyrir RÚV. Vonandi skilar þetta sér í flóðbylgju af góðu efni og við Íslendingar erum svo sannarlega ekki á flæðiskeri staddir þegar kemur að sögum sem sjónvarpsmenn hafa úr að moða. Í ár koma út næstum 800 bækur! Úr einhverju af því ætti að vera hægt að gera gott sjónvarp - við þetta bætist svo bókmenntaarfurinn! En þótt peningurinn sé kominn í hús þá finnst mér ennþá vanta skýra stefnu um það hvers konar efni Ríkisútvarpið á að framleiða. Verður þetta svona fyrstur kemur, fyrstur fær? Fá ákveðnir leikstjórar og framleiðendur forgang og aðrir látnir bíða af því þeir voru í fyrra og svo framvegis? Fyllist núna allt af krimmum - af því Örninn gekk vel?Það vantar skýrari sýn. Hvað með leikið barnaefni? Jóladagatal RÚV í desember, Jól á leið til jarðar, hefur verið sýnt tvisvar, ef ekki þrisvar áður (það er út af fyrir sig allt í lagi að halda vel gerðu efni að nýrri kynslóð).

Svo finnst mér líka skringilegur hljómur í því að RÚV skuli yfirbjóða Jón Ásgeir og 365 til að tryggja sér sýningarrétt á EM í fótbolta - en þurfi svo að ganga með betlistaf til Björgólfs svo það geti sinnt þeirri skyldu að framleiða leikið íslenskt sjónvarpsefni. Hvað næst? Kaupa enska boltann á uppsprengdu verði og láta Ólaf í Samskipum borga helminginn af kostnaði við fréttastofuna í staðinn?

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Yfirbauð RÚV Jón Ásgeir og félaga? Ég er ekki viss um það, heyrði e-n tímann að Eurovision væri með heildarsamning um keppnina og RÚV fylgdi bara með. Enda eru JÁ og félagar eflaust fegnir núna þar sem fjarvera Englendinga þýðir ca. 90 % minna áhorf. Eða þar um bil.
EG

9:09 f.h.  
Blogger Örn Úlfar said...

Góð spurning. Finn ekki nákvæmar tölur eða upplýsingar um þetta. Þetta leyndist á mbl.is:
Áætlað er að kostnaður við íþróttadeild Ríkisútvarpsins verði 207 milljónir króna á þessu ári. Á síðasta ári var kostnaðurinn 199 milljónir, 174 milljónir árið 2005 og 207 milljónir árið 2004. Ekki eru veittar upplýsingar um hvað Ríkisútvarpið greiðir fyrir sýningarrétt frá Formúlu-1 og fyrir sýningarrétt frá Evrópukeppni landsliða í knattspyrnu 2008 þar sem stofnunin er bundin trúnaði um þessa samninga.

Þetta kemur fram í svari menntamálaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Björns Inga Hrafnssonar, varaþingmanns Framsóknarflokksins.

Björn Ingi spurði einnig hvort sýningarréttur frá Formúlu-1 og EM hafi að hluta til verið fjármagnaður með stuðningi kostunaraðila og er svarið játandi.

9:24 f.h.  
Blogger Gummi Erlings said...

Ég held það sé búið að svara þessari spurningu með því sem er í bígerð: péningurinn fer í sakamálaþætti. Annars er svosem ágætt að benda á skáldsögur, en þær henta reyndar fæstar til kvikmynda- eða sjónvarpsgerðar, nema með miklum breytingum (nema auðvitað krimmarnir, allavega margir hverjir). Reyndar dreymir mig um framhaldsseríu byggða á Tómasi Jónssyni metsölubók...

5:54 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home