mánudagur, janúar 10, 2005

Að rýna til gagns

Út er komin bókin Kafka on the Shore eftir Haruki Murakami, einn af mínum uppáhaldshöfundum. Hann kom til landsins í fyrra á Bókmenntahátíð og sá ég hann þar þrisvar. Nú er bókin sem sagt komin út á ensku og er hástökkvari vikunnar á óskalistanum mínum. Ágætur dómur um bókina á Guardian.

Ætlaði sjálfur að skrifa merka gagnrýni um Dylan myndina Masked & Anonymous sem ég horfði á í síðustu viku eftir að hafa fengið veglegan kassa frá Amazon. Ég held ég sleppi því að þreyta lesendur á tuði um þessa mynd. Dylan fanatíkerar munu kunna að meta hana. Ég er ekki lengur hissa á því að mynd með Bob Dylan, John Goodman, Jeff Bridges, Penelope Cruz, Mickey Rourke, Jessicu Lange, Val Kilmer, Angela Basset, Giovanni Ribisi, Christian Slater og fleiri súperstjörnum hafi ekki komið í bíó. Myndin er sjónræn túlkun á textaheimi Dylans og lýtur alls ekki lögmálum Hollywood.

Hún gerist á byltingartímum í ónefndu landi (Dylandi?) og fjallar um fjárplógsmanninn Sweetheart (Goodman) sem nær rokkgoðsögninni Jack Fate (Dylan of course) út úr fangelsi einræðisforsetans til að koma fram á góðgerðartónleikum til styrktar fórnarlömbum átakanna. Dylan er magnaður í hlutverki Jack Fate sem svarar öllu með dæmigerðum Dylan heimspeki-töktum. Samtölin og tilsvörin eru eiginlega styrkur myndarinnar, því þótt þetta séu brilljant leikarar þá eru þau öll einhvern veginn "star-struck" þegar í senum með Dylan, því hann ER myndin. Hann er svo heitur að stjörnurnar bráðna bara þegar þær koma nálægt honum.

Sameiginlegur þráður í þessari mynd og bókinni Chronicles Vol. 1 er að Dylan (sem er annnar handritshöfundanna) virðist alveg ótrúlega pirraður yfir þvi hversu fólk dáist að honum, og lítur upp til hans. Jeff Bridges leikur einkennilegan blaðamann sem telur að Dylan/Fate eigi svörin við öllum heimsins spurningum og bregst illur við þegar fátt verður um svör en one-linererar fljúga í staðinn. Þversögnin er sú að ef Dylan væri ekki svona dáður þá mundi þetta fræga fólk auðvitað ekkert nenna að leika í þessum skringilegheitum fyrir brot af venjulegu kaupi.

Masked & Anonymous er mynd fyrir sanntrúaða Dylan menn og konur og mun líklega ekki afla honum neinna nýrra aðdáenda.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home