Agngrýni: Harry Potter og hálf-blóðugur prins - contains spoiler.
Eins og áður hefur komið fram er loftið lævi blandið í nýjustu skáldsögu J.K. Rawling, Harry Potter and the Half-Blood Prince. Ég hef í gegnum tíðina haft gaman af ævintýrum galdradrengsins og verður fróðlegt að sjá hvernig það verður leitt til lykta en J.K. hefur gefið það út að bækurnar verði aðeins 7. Þegar ég lauk við lesturinn á þessari 6. bók þá stóð upp úr tilfinning um að hún væri eins konar biðleikur, ákveðin hrókering, fyrir lokaátökin í síðustu bókinni. Í grunninn séð er bókin ekki um Harry heldur um annars vegar svipmynd af Voldemort og hins vegar nauðsynlegan dauða Dumbledores.
Dumbledore (Dummybore?) er einkennileg persóna, sem þjónar frásagnarlegu hlutverki í bókaflokknum sem eins konar guide fyrir Harry, svarar öllum spurningum hans sposkur á svip og virðist vera by far öflugasti galdrakarlinn. Hann kemur þó litlu í verk í sögunum, helst að maður finni fyrir því að hann sé í endalausu eftirlitshlutverki og skriffinnsku, kannski ekki ósvipað Reykjavíkurlistanum? Í þessari bók lýkur hann hlutverki sínu með því að sýna Harry Potter veginn áfram og afturábak og undirbýr þannig jarðveginn fyrir lokaátökin eins og áður sagði.
Í reglulegum einkatímum hjá Dumbledore kafa þeir Harry ofan í minningar fólks sem hafa átt samskipti við Voldemort gegnum árin og kynnumst við þannig þeim sem ekki má nefna loksins aðeins betur. Með þessu móti finna þeir helsta styrkleika Voldemorts, sem er jafnframt lykillinn að því hvernig hægt er að sigra þann forna fjanda. Það er augljóst að því loknu er ekkert hlutverk fyrir Dumbledore. Hann hlýtur því að deyja.
Bókin er reyndar frekar laus í forminu og ekki eins skýr tilfinning fyrir því hvernig skólaárinu vindur fram eins og í fyrri bókunum. Hluti af formgerðinni er spurninginn um hver sé hinn dularfulli Half Blood Prince - svo fyrirsjáanlegt að það er í besta falli athyglisverð þraut fyrir þýðendur bókarinnar, hint hint.
Ég hafði þó þrátt fyrir allt gaman að þessari bók, helst að manni leiddist þegar unglingaveikinni slær niður í sögupersónurnar, en það er skemmtilegt dæmi um raunsæi í fantasíunni. Og ætli það sé ekki einn lykillinn að velgengni Harrys Potter og félaga.
Og líka það, eins og áður sagði, þá endurspeglar bókin að vissu leyti þann ótta sem gegnsýrir Vesturlönd. Allir hræddir við dularfullan mann sem fer huldu höfði og ber enga virðingu fyrir mannslífum og sendir fólk hingað og þangað til að vekja ógn og skelfingu. Allar öryggisráðstafanir hafa verið auknar en það dugar ekki til. Hið illa finnur sér alltaf leið. Hvernig endar þetta allt saman?
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home