mánudagur, júlí 25, 2005

Tapað áróðursstríð

Strætó hefur verið gersigraður í áróðursstríði um nýja leiðakerfið. Kannski gerðu menn sér ekki grein fyrir því hvaða árásum þeir voru að bjóða heim með því að gerbreyta systeminu sínu svona - en það er ljóst að allir hata nýja kerfið. Það er staðreynd. En hefði þetta þurft að vera svona? Alls ekki. Ef Strætó hefði unnið heimavinnuna sína þá hefðu þeir byrjað að undirbúa kynningu á kerfinu löngu fyrr til að geta skapað einhverja stemmningu fyrir því. Á jákvæðan hátt. Í staðinn þá ráða sjálfstæðismenn og fúlir á móti umræðunni og fjölmiðlar eru fullir af kommentum um hversu mikil afturför nýja kerfið er.

Að hleypa umræðunni svona frá sér er vítavert, nánast glæpsamlegt kæruleysi, af hálfu Strætó. Afleiðingin er sú að fullt af fólki er hrætt við nýja kerfið og væntanlega mun farþegum fækka, þótt það sé ekki nýja kerfinu að kenna, heldur gallaðri kynningu á viðkvæmu efni í fjandsamlegu umhverfi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ræðst á allt og alla. Menn geta nú reyndar rétt ímyndað sér hvernig almenningssamgöngur væru ef Kjartan Magnússon, Guðlaugur Þór og Júlíus Vífill fengju að ráða þeim.

Ég tek ekki strætó en ég skoðaði kerfið um daginn og mér sýnist það að mörgu leyti skynsamlegt. Það er blanda af hverfisleiðum og hraðleiðum sem tengja hverfin saman. Svo eru mjög fínar leiðbeiningar að finna á netinu þar sem fólk getur fundið heppilegustu leiðina milli tveggja punkta. Þetta er á bus.is en auðvitað hefur Strætó ekki haft fyrir því að segja fólki frá þessu heldur.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home