helgi og veikindi i punktaformi
Farið á Laugarvatn á gráviðri á föstudag. Lúrt og lesið fram eftir blautum laugardeginum. Um kvöldið matarboð hjá þáttastjórnanda þar sem fágæt innsýn fékkst í daglegt líf Azera. Matarboðið dróst á langinn. Vöknuðum allt of seint fyrir skírnina sem við áttum að mæta í fyrir sunnan. Frestaðist um 15 mínútur en gekk samt vel og fékk snáðinn nafnið Sævar Snær og svaf allan tímann. Eins gott fyrir hann að þetta hafi verið tekið upp á vídeó, ef hann vill rifja þetta upp síðar.
Um kvöldið fór ég á Snoop Dogg með tveimur vinnufélögum. Sátum í svokallaðri VIP stúku og hlustuðum á upphitunarhljómsveitirnar og vonuðum að hljóðkerfið mundi detta í lag áður en hundstirnið mætti á svið. Það var ekki. Honum var vel tekið í áhorfendaskaranum en mér sýndist VIP stúkan taka þessu fálega. (Var ekki nýi mexíkóski Íslandsvinurinn með íslenska dömu upp á arminn?). Hljómurinn var svo fáránlegur í húsinu að maður skildi bara 3 orð frá Snoop "gin and juice". Á þessum tímapunkti var ég kominn með hausverk og hálsverk og hélt að það væri út af hávaðablöndunni en annað kom í ljós.
Mánudag vaknaði ég með rúmlega 39 stiga hita, hausverk og svita og var heima og í gær líka þegar ég hóstaði upp úr mér slímköggli af bíblíulegri stærð. Ég hélt að ég hefði óvart hóstað upp úr mér einu af litlu líffærunum, milta eða brisi.
Nú er ég mættur til vinnu og mikið hefur mávinum fjölgað í miðborginni...
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home