þriðjudagur, ágúst 16, 2005

VG úr Reykjavíkurlistanum

Vinstri grænir ætla ekki að bjóða fram með Reykjavíkurlistanum aftur. Þar með aukast möguleikarnir á íhaldi í borginni til dæmis ef íhaldsflokkarnir tveir starfa saman, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-grænir.

Ég vona að atburðir undanfarandi vikna verði til góðs og hristi upp í málefnum borgarinnar. Stólaslagnum er vonandi lokið og hægt að byrja að takast á um fólk og hugmyndir. Í haust er útlit fyrir nokkur spennandi prófkjör á öllum vígstöðvum þar sem ákveðin endurnýjun verður vonandi í boði. Spennandi verður að sjá hvað Samfylkingin gerir, en hugsanlegur möguleiki gæti verið einhvers konar framboð með framsóknarmönnum og óháðum.

VG eru greinilega ánægðir að losna úr Reykjavíkurlistanum og nýta vonandi tímann vel til hugmyndavinnu og málefnaundirbúnings. Þeir ættu alveg tækifæri til að verða smá spútnikkflokkur í borginni ef þeir halda vel á spilunum.

Staða Framsóknarflokksins er hins vegar tvísýn. Þeir hafa þó einkennilegt lag á því að standa sig betur í kosningum en könnunum. Gætu verið til alls líklegir ef þeir fórna Alfreð og bjóða upp á eitthvað nýtt og lofa öllu fögru.

Það fyndna er að líklega er Samfylkingin óskrifaðasta blaðið fyrir næstu kosningar enn sem komið er. Þeir ættu þó að hafa sjálfstraust til að spila sig stóra, halda opið prófkjör og vera með mikil læti. Þá kemur í ljós hvort Samfylkingin er risi á brauðfótum.

Læt ég lokið yfirferð minni yfir hið pólitíska landslag á miðjunni og vinstri væng borgarmálanna.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home