Guðni rektor
Nú hafa borist þær fréttir að minn gamli rektor úr MR, Guðni Guðmundsson, aka Guðni kjaftur, sé farinn yfir móðuna miklu. Ég átti nú ekki mikil samskipti við Guðna, en ég man vel eftir honum. Þegar ég var í þriðja bekk skammaði hann mig og Indriða félaga minn fyrir að borða á göngum skólans og rak okkur út með þéringum. Ætli þéringar hverfi ekki alveg endanlega úr málinu með fráfalli Guðna. Hann var algjörlega hinn eini sinnar tegundar.
Ég átti einu sinni fund með Guðna þegar árangur í ákveðnu stærðfræðiprófi um jól var úr takti við aðrar einkunnir og fyrri árangur í stærðfræði. Maður var auðvitað hálf skjálfandi á beinunum við að útskýra allt saman, en ég reyndi nú samt að vera bara kátur og bjartsýnn. Það fór líka bara vel á með okkur og ég gat útskýrt mitt mál. Hann lauk fundinum með þeim orðum að hann hefði nú alltaf minni áhyggjur af þeim sem væru glaðbeittir: „...líkt og þér“. Ef ég man rétt vorum við sem útskrifuðumst 1993 svo í síðasta árganginum sem hann brautskráði áður en hann settist í helgan stein. Það eru margir sem hafa skemmtilegri sögur að segja af þessum litríka rektor en mér fannst rétt að halda þessu til haga.
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home