mánudagur, ágúst 16, 2004

Frábærri helgi lýkur með vonbrigðum

Tók mér frí á föstudaginn og hélt upp að Kletti í Borgarfirði með Haffa, Gumma og þýskum vini hans frá námsárunum í Oxford, Malte. Þessi hópur snillinga náði vel saman í grilli og umræðum um náttúru, menningu og gagnrýni á fimmtudagskvöldið. Er hægt að ímynda sér náttúrugagnrýni, e. Nature Criticism? "Það mætti nú bæta við litlum fossi hérna. Þetta fjall fær ekki nema 8,5. Esjan fær þrjár stjörnur osfrv.". Á föstudeginum var Hallmundarhraun kannað og fékk það 3 stjörnur. Íshellirinn fær þó þrjár og hálfa, en hefði getað fengið fleiri ef við hefðum haft með okkur ljós til að sjá eitthvað. Við vitjuðum neta á heimleiðinni í landareign Guðmundar óðalsbónda á Kletti og fengum dágott af silungi og laxi. Við slepptum einum, en það á maður víst aldrei að gera því ef þeir eiga einhvern lífsneista eftir drepast þeir úr hjartaáfalli um leið og maður hendir þeim út í aftur. Einn silungurinn endaði í sushi rétti en annar á grillinu og þóttu báðir lostæti, þótt eflaust hafi þeir haft önnur plön um helgina.

Á laugardeginum héldum við í bæinn um Kaldadal og höfðum augun opin fyrir svokölluðu klukkutímafjallli, en Þjóðverjinn hafði óskað eftir klukkutímagöngu upp á fjall að okkar vali. Við völdum Ármannsfell, m.a. með það í huga að fá gott útsýni yfir Þingvelli. Gangan tók þó heila 2 tíma því fyrir hver þrjú skref á leiðinni upp rann maður tvö til baka í skriðunum. Um kvöldið grillaði ég silung sem ég fékk í minn hlut fyrir hana Ástu mína og féll það í kramið.

Við fórum síðan á sunnudeginum í magnaðan bíltúr um Suðurland. Byrjuðum í hádegismat í flottum stað milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka sem heitir Hafið bláa, síðan fengum við kaffi og risastóra súkkulaðiköku í Rauða húsinu á Eyrarbakka. Að því loknu létum við hræða úr okkur líftóruna í Draugasetrinu á Stokkseyri og er óhætt að mæla með heimsókn þangað! Svo var sund á Selfossi og heimsókn til ættingja þar sem hafa með dugnaði og einbeitingu náð að rækta 500 tegundir af blómum og jurtum í garðinum hjá sér. Ekkert ólöglegt var þó að finna í því úrvali.

Satt að segja frábær helgi. En hver voru vonbrigðin? Jú þau voru upptaka af leik Chelsea og Man Utd. Auðvitað er gaman ef Gudjohnsen gengur vel, en leitt að sjá hversu bitlausir mínir menn voru. Héldu boltanum ágætlega en voru þó fremur máttlausir fram á við og virtist hugmyndaleysi hrjá miðjuleikmenn, sérstaklega Djemba Djemba og O'Shea. Þarf ekki að bæta við mönnum þegar svona margir lykilmenn eru meiddir eða uppteknir við Ólympíu? Maður spyr sig.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home