mánudagur, september 27, 2004

Kennaraverkfall, hverjum er um að kenna?

Nú eru allir fréttatímar fullir af kennaraverkfallinu. Það er því eðlilegt að röfla aðeins um það. Úff.

Nú er það óumdeilt að sveitarfélögin hafa, lögum samkvæmt, ákveðnar skyldur við okkur borgarana. Til þess að standa undir því borgum við útsvar. Mörgum barnlausum, ehemm, þykir þeir fá heldur lítið fyrir útsvarið, en nóg um það. Fyrir greiðslu þessa útsvars til sveitarfélaganna eiga börnin manns að fá menntun við hæfi, meðan þau eru á grunnskólaaldri. Ef barnið manns er fatlað þá nýtur það sömu réttinda, þ.e. að fá menntun við hæfi. Fyrir þetta borga menn skatt sem kallast útsvar.

Samt er allur fréttaflutningur, og þar með upplifun almennings, á þá leið að nú séu kennarar, enn og aftur(!), til vandræða og það sé á þeirra ábyrgð að kennsla stöðvast. Það gleymist alltaf að það eru sveitarfélögin sem hafa lagalega skyldu til að veita þessa sjálfsögðu þjónustu. Þau ráða síðan kennara. Ef þau ákveða hins vegar að ráða ekki kennara, eða missa þá úr vinnu, eins og nú, hvað þá. Hvern skammar þú ef ég lofa að skipta um parkett heima hjá þér en geri það ekki, af því ég fann engan sem vildi gera það fyrir smáaura?

Auðvitað þurfa kennarar líka að sýna sáttahug en sannleikurinn er sá að síðasti samningur við kennara rann út fyrir meira en hálfu ári síðan. Miðlungsmenn í enska boltanum fara nú að líta í kringum sig þegar 1-2 ár eru EFTIR af samningnum þeirra.

Á sama tíma og vælt um neyðarástand á heimilum vegna verkfalls sem hefur staðið í viku, þá neita menn að semja um 160 þúsund króna byrjunarlaun til að leysa það. Hvað er í gangi?

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home