mánudagur, september 20, 2004

Örþreyttur eftir veiðiferð

Jú, veiðiferðin varð að veruleika. Lögðum upp fimm á tveimur bílum á laugardagsmorgni og stefndum að félagsheimilinu í Dalsmynni í Svínadal við rætur Auðkúluheiðar. Hestarétt sveitarinnar stóð sem hæst þegar okkur bar að garði. Hápunktar:

Fulli kallinn sem datt af hestinum í hestaréttinni við Dalsmynni
Fulli ungi gaurinn að sunnan sem ætlaði að keyra heim úr hestaréttinni en kom ekki bílnum í gang. Tengdamóðir hans: Við búumst nú ekkert við að hann komi aftur hingað norður."

Lögðum netin en síðan var haldið á ball á Blönduósi þar sem hljómsveitin Sixties lék fyrir dansi. Höfum sem fæst orð um hljómsveitina, en gaman var á ballinu og líklega mest gaman af því að tala við fólkið í sveitinni. Eftirminnilegastur er Jónmundur bóndi í Kambaseli en hann er einn af þeim fáu bændum sem halda geitur. Á ég inni hjá honum vilyrði fyrir geitakjöti hvenær sem er. (Man ekki alveg hvað ég var að hugsa, því geitakjöt er neðarlega á óskalistanum akkúrat núna...)

Veiðin í Mjóavatni gekk vel og var aflinn of góður. Of góður? Já, afleiðing slíks mokfiskerís er að enginn veit hvað á að gera við allan þennan fisk. Nokkrir vænustu fiskarnir (sem voru allt að 3,5 pundum) verða væntanlega sendir í reyk, miðstærðin var flökuð á staðnum en restinni hent. Alltaf fúlt að henda mat, en í þetta sinn varð ekki á annað kosið. Nóg um það. Ég steikti hluta af flökunum sem komu í minn hlut við heimkomuna seint í gær en á fullt eftir.

Í lokin er óhætt að mæla með því gegn þynnku að fara undir bert loft og slægja slatta af bleikju.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

ég átti heima í kambaseli

2:05 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home