Ísfregn
Hafís hefur lagst upp að Röflinu. Með loppna fingur rita ég þessi örstuttu skilaboð til að halda lífsmarki. Hvað er að frétta? Ja, maður spyr sig. Fréttamenn Útvarpsins ætla ekki að vinna með Auðuni Georg og segja Markús Örn ljúga að þjóðinni. Hvað mundu franskir fréttamenn gera? Þeir mundu hneppa Markús í bönd og fara með hann á sendibílspalli niður í stjórnarráð og skila þessum draugi aftur til föðurhúsanna. Útvarpsráð væri grýtt með úldnu grænmeti, nema Pétur Gunnarsson, sem væri hengdur upp á tánum við hliðina á styttunni af óþekkta embættismanninum. Svo væri bara sest niður við hljóðnemann og sagt reyndri röddu: Í fréttum er þetta helst: Afli línubáta hefur verið lélegur, seiðatölur Hafrannsóknarstofnunar benda til þess að....
Nú ætla ég að fara í ræktina að bræða smjör. Af ástæðum sem ég mun kynna síðar var ég staddur í gömlu ræktinni minni í Austurstræti, sem nú stendur auð. Þar fann ég möppu sem allir meðlimir höfðu skrifað markmið sín í. Þetta var gert árið 2001. Þar fann ég mitt eigið nafn á blaði. Þá var markmið mitt að þyngjast. Það vottast hér með að því markmiði hefur verið náð. Og tími til kominn að setja sér nýtt. En mikið sakna ég gömlu gufunnar - í Austurstræti.
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home