fimmtudagur, apríl 28, 2005

Varnarleikur og vitleysa

Í gær var varnarleikur í beinni á SÝN. Kannski varla við öðru að búast, öll skemmtilegu liðin dottin út úr Meistaradeildinni og fúleggin eftir. Það hefði verið skemmtilegra að horfa á Barca, Man Utd, Real og Lyon berjast um 5. sætið heldur en að horfa á tímann líða meðan beðið er eftir súrum varnarúrslitaleik Milan - Chelsea, og ekki væri Milan - Liverpool betri kostur. Nóg um það.

Ég var að fá tilboð í bílatryggingar og kostnaðurinn við að færa sjálfsábyrgð úr 20.000 kr. niður í 0 kr. er kr. 7.000. Á maður að gera það? Þetta er tilvistarleg spurning. Á maður að borga 7.000 kr. til að sleppa við kostnaðinn af því þegar einhver karl með hatt keyrir utan í bílinn fyrir utan IKEA eða ekki? 7.000 kr. fyrir algjör ábyrðgarleysi. Tja. Maður spyr sig. Hvers virði er ábyrgðarleysi.

Sting upp á því að Sjónvarpið fái Hrafn Gunnlaugsson til að gera þáttaröð um deilurnar í Menntaskólanum á Ísafirði. Myrkrahöfðinginn 2. Þetta er sama konseptið: Menntamaður að sunnan með einstrengingslegar skoðanir reynir að breyta til í vestfirsku plássi. Handritið hefur verið að skrifa sig sjálft á síðum Morgunblaðsins undanfarnar vikur. Hvað gerist næst? Verður enskukennarinn brenndur á báli fyrir utan Menntaskólann? Hvað gerir Mugison? Fer Ólína suður á fund Þorgerðar Katrínar (leikin af Kjartani Gunnarssyni) og fær lausn sinna mála? Hrafn í málið.

Nú styttist í sumardagskrá RÚV með tilheyrandi endursýningum og útþynningu. Ég sting upp á því að það verði endursýndir hinir stórbrotnu þættir sem voru á dagskrá á gullöld RÚV (hvenær var hún annars?) og hétu Sjónvarp næstu viku. Þá verður dagskráin betri en hún var hjá þeim síðasta sumar.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hvað með að fá Magnús Bjarnfreðsson aftur með þáttinn Á döfinni?

10:47 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home