miðvikudagur, júlí 27, 2005

Fríksjó í Kastljósinu

Jim Rose tröllreið fjölmiðlum í gær með viðundrum sínum og var sérstaklega fyndið að sjá hann í Kvöldþættinum hjá Gumma. Gummi sagði að það væri hálfgert freakshow í þættinum: Jim Rose og Gísli Marteinn. Ekki er ég viss um að Gísla hafi þótt það fyndið, en hann var annars fínn í þættinum. Það sem mér fannst samt einkennilegast við framboðið á Jim Rose efni í gær var að Kastljósið skyldi taka þetta inn. Var ekki verið að ræða það í Kastljósinu um daginn að Strákarnir hefðu svo slæm áhif á krakka því þeir væru sýndir svo snemma á kvöldin. Í því ljósi finnst mér það fullkomið dómgreindarleysi hjá þeim í Kastljósinu að hafa mann í þættinum sem gleypir rakvélablöð. Ef krakkar eru svona mikið að apa upp eftir sjónvarpinu eins og sumir halda fram þá er alla vega skárra að þau pissi í sig heldur en að gleypa rakvélablöð.

Alþjóðleg ljóðahátíð verður í Reykjavík um helgina. Gaman að sjá hvað krakkarnir í Nýhil eru að hleypa miklum krafti í umræðuna um ljóðlist, reyndar er stutt í gorgeirinn og besservissið hjá sumum en hvað um það. Hroki er hraustleikamerki. Flutt verða inn ýmis ljóðskáld sem verða vonandi plögguð til stjarnanna. Það vantar ljóðaleiðtoga á Íslandi, held ég. Áberandi og góð ljóðskáld. Fjalla kannski meira um þetta síðar.

Þegar maður ferðast erlendis er ekki ósjaldan sem fiskur er dýrari en kjöt á veitingastöðum. Þetta vekur athygli Íslendinga sem hafa í gegnum tíðina átt nóg af fiski en stundað heimilis-heimskautarækt á kjöti. Ég held að þetta sé að breytast, alla vega finnst mér fiskur orðinn fáránlega dýr og kjötið alltaf að verða ódýrara.

Þessu skylt: Nóatún auglýsti um daginn verðlækkun á helstu neysluvörum heimilisins. Eitt af því sem lækkaði var verð á ungnautalundum. Sem eru jú á borðum flestra reglulega, er það ekki? Ég keypti eitt stykki. Það var smátt, litlaust og bragðdauft, nánast eins og kálfakjöt. Hmmmm. Gæti það verið?

Stórfréttin sem bíður þeirra sem nenntu að lesa rausið hér að ofan er þessi: Í hádeginu í dag fæ ég afhenta lyklana að nýju íbúðinni, tveimur dögum á undan áætlun. Nú fer allt á fullt. Ó mæ godd. Innipúkinn hvað?

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home