Toni og tittlingarnir
Ekki hefði ég viljað missa af tónleikum Antony and the Johnsons á Nasa í gær. Þvílíkur söngvari sem þessi maður er. Ef hann er maður. Toni er listamaður sem hefur komið sér fyrir á gráa svæðinu milli þess að vera karlmaður og kona, ekki aðeins útlitslega, heldur einnig með fullkomlega einstæðri og heillandi söngrödd. Hann var dálítið seinn í gang í gær en sprakk út eftir nokkur lög og pakkaði salnum saman með hæfilegri blöndu af dramatískum ballöðum og grallaraskap. Fyrir utan eigin lög þá tók hann lög eftir Nico, Leonard Cohen, Moondog, David Tibet og Lou Reed (Candy Say's var uppklappslagið hans).
Það verður þó að segjast að þótt Antony hafi leikið á als oddi þá er hljómsveitin hans, bassi, harmonikka, fiðla, selló og gítar, líklega sú brosnískasta sem ég hef séð á tónleikum. Það var helst að glitti í tennurnar á þeim þegar Antony brilleraði í sögunni um sjálfan sig sem eiginkonu hellisbúa í fyrra lífi sem hann söng síðan lag um.
Hljómsveitin Hudson Wayne hitaði upp en heillaði mig ekki.
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home