mánudagur, júlí 11, 2005

Spurt, spurt og svarað

Spurningakeppnin fór vel fram á föstudaginn, sigurinn var afgerandi þannig að ákveðið vafaatriði skipti ekki sköpum þegar upp var staðið. Einhverjir voru búnir að biðja um að spurningarnar yrðu póstaðar hér og ég get svo sem hent þeim inn. Það er svo sem auðvelt að svara þessu á netinu örugglega, en það er auðvitað ekki eins gaman. Hér er keppnin eins og hún var fluttá föstudaginn:

1.
101 Reykjavík nýtur þeirrar sérstöðu að þar fer næturlíf höfuðborgarbúa og nærsveitunga fram. Í kvöld og annað kvöld munu þúsundir streyma í 101 til að fá sér í glas. Og annað. Menn ráfa um dauðadrukknir og ráða ekki allir sínum næturstað. Flestir komast heilir heim en sumir fá gistingu, þeir óheppnu hjá lögreglunni, en aðrir leggjast til svefns eða beinlínis drepast á afviknum stöðum í miðbænum ekki síst á sumrin. Vinsæll staður til að drepast á er Alþingisgarðurinn en nú er spurt: Hver hefur legið lengst allra dauður í Alþingisgarðinum og liggur þar enn? Hver er grafinn í alþingisgarðinum?

2.
Við rönkum semsagt við okkur í Alþingisgarðinum og virðum fyrir okkur umhverfið. Þá sjáum við að alþingishúsið er ekkert sérstaklega ljótt enda teiknað af dönskum arkítekt. Húsið er reist í byrjun 9. áratugs 19 aldar úr grjóti sem höggvið var í Skólavörðuholtinu ef ég man rétt, en þá fer maður að velta fyrir sér steintegundinni sem húsið er úr. Hver er hún?

3.
Við ætlum ekki að dvelja lengur í við alþingishúsið, og þó. Við göngum út úr alþingisgarðinum (Þetta er að breytast í svona guided tour....er Birna Þórðar nokkuð að keppa?). Við göngum úr alþingisgarðinum í átt að dómkirkjunni og virðum hana fyrir okkur. En hvað heitir gatan sem við stöndum á? Hvaða gata liggur milli dómkirkjunnar og alþingishússins?.
4.
Þegar komið er yfir á Austurvöll kemur upp í hugann að forsetaferill Halldórs Blöndals á alþingi hefur oft verið stormasamur og síðast gustaði um hann þegar hann lagðist gegn sýningu myndverka sem nú stendur yfir á Austurvelli. Ekki hefur þó tekist að sanna að Blöndalinn beri ábyrgð á þeim skemmdarverkum sem voru unnin á sýningunni sem var þarna í fyrra, en nú er spurt: hver tekur við embætti forseta alþingis í haust þegar Halldór Blöndal lætur af því?

5.
Stöldrum við á Austurvelli og förum að reikna. Þessi spurningin hljómar örugglega erfið við fyrstu hlustun en með smá skynsemi ættu allir með 85+ meðalgreind að komast nálægt svarinu. Talan 101 er prímtala. Ekki er hægt að deila henni með neinni annarri tölu og fá út heila tölu, nema einum. Ef prímtölunum er raðað í röð eftir stærð, t.d. 2, 3, 5, 7, 11 og svo koll af kolli þá er 101 sú 26. í röðinni. Það skemmtilega er að ef fimm samliggjandi tölur í röðinni eru lagðar saman þá fæst útkoman 101. Hvaða tölur eru það? Spurt er um fimm samliggjandi prímtölur en summa þeirra er 101.

6.
Leiðin okkar liggur yfir Austurvöll og á skemmtistaðinn sem ber nafn bandarísku geimvísindastofunarinnar Nasa. og vissulega hafa margir verið svolítið speisaðir þar en hvað heitir eini Íslendingurinn sem raunverulega hefur farið út í geiminn (svo vitað sé).

7.
Nýtt hótel hefur verið opnað í gamla Eimskipafélagshúsinu og hvað heitir það nú? Jú 1919 hótel, væntanlega í höfuðið á vinsælum sjónvarpsþætti á Stöð 2. Í tilefni af nýju hlutverki hússins var ákveðið að hylja merki þeirrar starfsemi sem áður fór fram í húsinu með sérstökum skildi þar sem á er letrað 1919, reyndar með leturgerð sem var teiknuð árið 1938 ef mér skjátlast ekki. En mörgum finnst án ef léttir að vera lausir við hakakrossinn af húsinu, oft hefur maður séð erlenda ferðamenn taka myndir af þessu merki, þótt það sé í smáatriðum frábrugðið merki nasista en nú er það eins og áður sagði falið undir fölskum skildi. Gamli hakakrossinn í merki Eimskipafélagsins á sér fyrirmynd í rún sem hefur sérstakt nafn eða heiti í íslensku máli, : Hvaða nafn er það?.

8.
Nasistum leiðist kannski að geta ekki lengur séð tákn sitt á glæsilegu húsi en þeir geta þó enn fengið sínar SS pylsur á Bæjarins bestu. Sláturfélag Suðurlands var stofnað við Þjórsárbrú 28. janúar 1907 og notar skammstöfunina SS á Íslandi en á alþjóðavettvangi er annað Slátur-Félag þekktara undir þessum einkennisstöfum. Nú er spurt: Fyrir hvað stóð skamstöfunin SS í Þýskalandi Hitlers. Spurt er um þýska orðið eða þýðingu þess á íslensku.

9.
Einn er sá maður sem setti svip á 101 Reykjavík um árabil. Minna hefur farið fyrir honum eftir að hann flutti rekstur sinn úr 101 en þó beindist að honum kastljós fjölmiðlanna um daginn þegar honum þótti á sér brotið. Um hann og rekstur hans var ort kvæði sem margir þekkja. Nafn mannsins og rekstrar hans vita þeir sem geta botnað þennan fyrripart:

Lífið allt fær annan stíl,
örvast kraftur stuðsins...


10.
Örfáir Íslendingar eru svo heppnir að eiga einhverjar krónur inni á bók í banka. Er þeim hér með óskað til hamingju. Landsbanki Íslands er elsti banki landsins og í aðalbanka hans í 101 Austurstræti hefur í áranna rás safnast gott safn af myndverkum sem gleðja augað meðan reikningarnir eru jafnaðir. Í aðal-afgreiðslusal bankans á fyrstu hæð má sjá veglega veggmynd, eða fresku, eftir einn merkasta myndlistarmann þjóðarinnar, sem minnir okkur vesæla borgarbúana á mikilvægi landbúnaðarins. Eftir hvern er þetta verk?

11.
Þeir eru margir ógreiddir reikningarnir sem leiddir eru til lykta í 101. Kannski hefur einhver hér salnum þurft að taka út pening í Landsbankanum og rölta sér svo yfir til tollstjóra til að gera upp vangoldna skatta eða ógreidd meðlög. Eftir hvern er litskrúðuga veggmyndin utan á húsi Tollstjórans í Tryggvagötu?

12.
Hvaða orð þýðir bæði spil, sérstakt farartæki og tuska?

13.
Þegar staðið er við hið geysifagra hús á Lækjartorgi sem sinnir hlutverki biðskýlis fyrir strætó og horft beint framan á Stjórnarráðið þá sjáum við styttur þeirra Kristjáns 9 og Hannesar Hafsteins: Hvor þeirra er hægra megin þegar horft er framan á húsið?.

14.
Á sama stað sést skemmtilegt listaverk sem er hluti af hótel 101 - en hótelið er hannað af eigandanum Ingibjörgu Pálmadóttur. Verkið, sem um ræðir er bæði inni á veitingastað hótelsins og veggnum fyrir ofan og samanstendur af eins konar bungum og líkist því að veggurinn sé að klekja út afkvæmum. Eftir hvern er þetta verk?

15.
Við síðustu alþingiskosningar kusu Reykvíkingar í tveimur kjördæmum: Reykjavík Norður og Reykjavík Suður og eru skil kjördæmanna m.a. miðuð við Hringbraut enda augljóst að íbúar við Skaftahlíð eiga meiri samleið með íbúum á Mururima, en Barmahlíðar. Hvað um það. Hringbrautin sker semsagt póstnúmerið 101 í tvo parta og eru miklum mun fleiri íbúar í nyrðri hlutanum. En hvor hlutinn er stærri að flatarmáli, 101 norðan eða sunnan Gömlu Hringbrautar?

16.
Skáldsagan 101 Reykjavík var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 en kom út árið 1996. Höfundur hennar er myndlistamaður sem vakti þó fyrst athygli sem pistlahöfundur í útvarpi. Fyrsta bókin hans Hella kom út árið 1994 en hvað heitir síðasta bókin sem Hallgrímur Helgason setti á flot í hinu árlega jólabókaflóði?

17.
Nútímavæðingin hefur haldið innreið sína í 101. Það hefur t.d. komist í tísku að hafa 101 í nafni fyrirtækja meðal annars 101 Leikskólar. Ég les nú nöfn fimm fyrirtækja úr símaskránni en eitt þeirra var svo heppið að tryggja sér lénið 101.is. Heimasíða hvaða fyrirtækis kemur upp þegar slegið er inn www.101.is
101 tannlæknar
101 Reykjavík fasteignasala
Sólbaðsstofan Sól 101
101 hotel
101 arkítektar
Hvert þessara fyrirtækja er með heimasíðuna 101.is.

18.
Í fáum póstnúmerum öðrum en 101 er að finna útigangsfólk. Helsta félagsheimili þeirra og þeirra fáu vina er Kaffi Austurstræti, einnig kallað Kaffi skítur, og tók við af Keisaranum sáluga. Þeir sem vita nákvæmlega svarið við þessari spurningu ættu ef til vill að hugsa sinn gang: Hvað kostar stór bjór á Kaffi Austurstræti? Skekkjumörkin er 50 krónur.

19.
Um daginn sat hópur manna um hótel 101 í von um að berja knattspyrnugoðið David Beckham augum. Hann var þó fjarri góðu gamni kappinn sá en hann leikur eins og kunnugt er með konunglega knattspyrnufélaginu í Madríd. Sterkur orðrómur er um að liðið sé í þann veginn að klófesta einn efnilegasta knattspyrnumann veraldar. Hann vegur 60 kíló og hefur vakið gríðarlega athygli bæði með einu þekktasta félagsliði Suður Ameríku. Hvað heitir þessi efnispiltur?

20.
101 er eina póstnúmerið í Reykjavík sem hefur sinn eigin flugvöll. Hér um árið fóru fram kosningar um hvað yrði um þennan blessaða flugvöll eftir árið 2016. Sem kunnugt er vildi meirihluti þeirra sem atkvæði greiddu að flugvöllurinn færi og taldi þáverandi borgarstjóri niðurstöðuna þó ekki bindandi, heldur siðferðilega bindandi, sem er nýtt lýðræðishugtak umræðustjórnmálanna. Flugmálastjóri og félagar sem vildu hafa flugvöllinn áfram töpuðu semsagt kosningunum, alla vega siðferðilega, en hvað hét þrýstihópurinn sem barðist á þessum tíma fyrir því að flugvöllurinn færi og fagnaði siðferðilegum sigri í áðurnefndum kosningum?

21.
Í kvikmyndinni 101 Reykjavík eftir Baltasar Kormák lék Victora Abril flamengókennarann Lólu sem sefur hjá Hlyni Birni, aðalsöguhetjunni, ef hetju skyldi kalla, sem Hilmir Snær Guðnason lék. Lóla á einnig í ástarsambandi við móður Hlyns Bjarnar, Berglindi. En hver lék hana? Þ.e. Berglindi

22.
Nóg um Hlyn Björn, en ungur íslenskur leikari, Björn Hlynur Haraldsson hefur getið sér gott orð hér á landi og nú erlendis en hann leikur nú í Lundúnum í verki sem skartar einnig hinu suður ameríska sjarmatrölli Gael Garcia Bernal. Hvaða verk er þetta?

23.
Póstnúmerin íslensku eru ekki öll landfræðilegs eðlis. Einhverjum hefur þótt póstnúmerin vera of alþýðleg fyrirbæri og því ekki gjaldgeng fyrir helstu embættismenn þjóðarinnar og því var sett upp sérstakt, jafnvel nokkuð huglægt póstnúmer, sem að mörgu leyti er umlukið af hinu landfræðilega póstnúmeri 101: Póstnúmerið er notað til að senda alþingi, forsetaembættinu, stjórnarráðinu og fleiri meginstólpum lýðveldisins Íslands bréf. Hvaða póstnúmer er þetta ?
24.
Eins og menn vita liggur lækur undir Lækjargötu. Ekki er mjög líklegt að sama lögmál gildi um Þjórsárgötu, en þessi lítt þekkta gata er í Reykjavík. En er Þjórsárgata í 101?

25.
Fátt er um stórbrotin náttúruundur í 101, en þó er þar að finna einn goshver, hann er reyndar manngerður og er við Perluna í Öskjuhlíð. Hvað heitir þessi hver?

26.
Ég ætla að lesa brot úr þekktu kvæði sem líklega gerist í 101, þótt ég hafi ekki ennþá fundið staðinn nákvæmlega:
Elegans,
glaum og dans,
videó,
almennilegt sjó.
Glas og rör,
stanslaust fjör,
síðan heim,
geim handa tveim,
Fyrirtaks veitingar...

Hver er næsta lína í þessum kveðskap?

27
í hvaða skáldsögu kemur hið alræmda Room 101 fyrir, herbergi sem menn fékk menn til að kjafta frá ýmsu?

28.
Í sögunni um 101 dalmatíuhund freistar Grimmhildur (Cruella de Vil) þess að sníða sér pels úr feldum þessara fallegu hunda. Hundakynið, sem börnin elska, en á í raunveruleikanum ekkert sérstaklega gott með að eiga samskipti við börn, er nefnt eftir Dalmatíu sem er svipmikið og fallegt landsvæði í Evrópulandi sem hefur ekki farið varhluta af grimmd í áranna rás. Í hvaða landi er héraðið Dalmatía?

29.
Textavarpið er einn vanmetnasti fjölmiðill landsins. Þar geta menn til dæmis gáð að ýmsum úrslitum í fjölda íþróttagreina, og séð komu og brottfarartíma flugvéla, þróun launavísitölu og lánskjaravísitölu 3 ár aftur í tímann, farið á kvótamarkað og, sem ég reyndar vona að enginn hér inni geri reglulega, tekið þátt í spjalli og sent öðrum áhorfendum textavarpsins kveðjur. En nú er spurt hvað er að finna á blaðsíðu 101 í textavarpinu?

30.
Við nálgumst nú endalok þessarar ágætu keppni og í lokaspurningunni er ekki leitað langt yfir skammt. Grannabar Grand Rokk heitir The Celtic Cross. Hinn keltneski kross. En hvernig lítur keltneskur kross út?

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

1 Comments:

Blogger Kristján Valur said...

Agalegt að lenda í að missa af þessu. Sniðugar spurningar, en mér fannst þær allar svo keimlíkar og einskorðast við miðborg reykjavíkur eitthvað.
Hér eru niðuststöður hafnfirsku dómnefndarinnar:
Hannes Hafstein?
Basalt
Kirkjustræti?
Geir Haarde
13 17 19 23 29
Bjarni Tryggvason
Þórshamar
Schutz Staffel
Farðog keyptu betri bíl hjá bílasölu Guðfinns
Jóhannes Kjarval
Ekki Nínu Tryggvadóttur.
Tvistur
Hannes er hægra megin
Lilja Pálmadóttir
sunnan (flugvöllurinn)
Ódýrt Bensín
Tannlæknar?
350
robinho
Vinir Vatnsmýrarinnar
Æ, hún Gunna.
Einleikur á Óbó
999

Buni
Fjólublátt ljós við barinn
1984
Júgóslavíu
Efnisyfirlit
Hann hefur jafna arma

11:31 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home