mánudagur, september 19, 2005

Maoríar á Blönduósi

Þau eru kannski full dýr bleikjuflökin sem verða pönnusteikt á Reynimelnum í kvöld - en veiðimennirnir sjá þó ekki eftir neinu.

Farið var á tveimur bílum norður á laugardagsmorgni og netin lögð. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður í Esso skálanum á Blönduósi og bjór hafður um hönd á gistiheimilinu sem stendur við hinn raunverulega Blönduós, ekki langt frá Brauðgerðinni Krútt. Svo var haldið á réttardansleik þar sem danshljómsveitin Úlrik lék fyrir dansi. Sveitin kom á óvart og náði upp miklu stuði.

Réttara nafn fyrir ballið væri kannski sláturdansleikur, því þarna ægði saman allra þjóða kvikindum sem voru flutt inn til að ganga af íslensku sauðfé dauðu. Átti ég ágætt tal við böðla ýmissa þjóða, jafn pólska sem sænska en athyglisverðastir voru tveir sláturfélagar sem fluttir voru langan veg að. Tel ég ljóst að forsvarsmenn sláturiðnaðarins hafi metið stöðuna þannig að þörf væri á maórískum stríðsmönnum til að fást við viðskotaversta sauðfé og létu þeir félagar vel af launakjörum. Ég sagði þeim að þótt þeir væru að fá helmingi meira en þeir fengju í Nýja Sjálandi þá fengju þeir samt helmingi minna en Íslendingar fengju í laun. Létu þeir sér fátt um finnast enda gaman að koma hingað yfir hálfan hnöttinn til að murka líftóruna úr besta kjöti í heimi.

Auðkúluheiðin skartar sínum fegurstu haustlitum og var Mjóavatnið bærilega gjöfult þannig að aflatekjur sluppu fyrir horn og ætti að duga í eina máltíð fyrir tvo and then some.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home