Skin og skúrir í Laugardalnum í gær
Þegar við Ásta mættum á Laugardalsvöllinn í gær, bjóst ég satt að segja ekki við miklu. Tíðindalítill fyrri hálfleikur kom mér samt ágætlega á óvart, þar sem KR-ingarnir voru betri en írsku atvinnumennirnir og virkuðu ágætlega skarpir á köflum. Í hálfleik hitti ég Auðunn Atlason og við vorum sammála um að þetta væri steindautt núll-núll jafntefli. Svo byrjaði seinni hálfleikur með látum og Arnar Jón Sigurgeirsson skoraði fyrir KR og stuttu síðar bætti Sigurvin Ólafsson við marki eftir fínt fríspark frá Arnari Gunnlaugs. Allt var gott í KR-landi allt þar til 6 mínútur voru eftir þegar menn misstu allt í einu kúkinn í brækurnar og fengu á sig 2 mörk upp úr litlu. Shelbourne fékk eitt færi en skoraði 2 mörk.
Enn og aftur leit íslenski fótboltastuðningsmaðurinn illa út í alþjóðlegum samanburði. KR-ingar voru líklega fimmtíu sinnum fleiri á vellinum en samt heyrðist miklu meira í áhangendum Shelbourne. Við: KÁ-ERR, búmm búmm búmm, KÁ-ERR, klapp klappp klapp; en þeir pökkuðu okkur saman í fjölbreyttum fagnaðarsöngvum, sem stráðu svo salti í sárin eftir að þeir jöfnuðu, fíflin.
Ljósi punkturinn gæti verið þessi: KR skellir gómum um skjaldarrendur og heldur áfram að spila jafn vel og í gær og þannig rúlla þeir upp þessari apakattarlegu deild hér heima.
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home