þriðjudagur, maí 17, 2005

Pistlakynslóðin

Allt í einu lifum við á tímum þar sem meira framboð er á pistlum en eftirspurn. Með pistli á ég við stuttar og gagnorðar umfjallanir um málefni dagsins þar sem þau, og þú, eru skoðuð frá einu ákveðnu sjónarhorni. Pislar hafa tíðkast gegnum tíðina í erlendum dagblöðum en eiga ákveðið blómaskeið hér og nú. Og vandinn er sá að greina skrautblómin frá arfanum. Netsprengjan með blogginu er að sönnu stórtækasta breytingin í þessum efnum, þar sem ég stend mig að því að lesa allt að 25 pistla á dag. Útvarpið kemur líka sterkt inn og veit ég fátt betra útvarpsefni en góðan pistil. Einhvers staðar sá ég pistil þar sem helstu pistlahöfundar voru bornir saman, en það var einhvern veginn ekki að gera sig. Það þyrfti góðan pistlahöfund til að gera þessari þróun skil, greina (bókmenna?)formið skipulegar en gert er hér að ofan. Svo mætti stofna heimasíðu, til dæmis pistill.is, þar sem einhver heldur utan um bestu pistlana hverju sinni, menn mundu, koma með komment, gefa einkunn etc. etc ad nauseam. Reyndar gerir netið þetta svolítið fyrir okkur því góðir pistlahöfundar vísa hver á annan. Þannig er netið eins kona meta-pistill, nema hvað Röflið vísar aldrei neitt. Ég er svo barnalegur að mér finnst vera einhver dónaskapur í að vísa fólki svona frá sér. Komi þeir sem koma vilja og svo framvegis. Nú er ég farinn að bulla.

Að myndlist:
Nú stendur yfir Listahátíð með áherslu á myndlist. Ég fletti Morgunblaðinu í morgun í leit að helstu tíðindum. Hvað finn ég? Jú á blaðsíðu 6 er fyrirsögnin „Algjört listaverk“. Var greinin um List-flug myndlistarelítunnar? Rúnk-verk Barneys fyrir norðan? Ælan hennar Gabríelu? Óreiðan hans Dieters? Nei. „Þetta er algjört listaverk“ segir Árni Halldórsson skipstjóri á hvalaskoðunarbátnum Níelsi Jónssyni um gríðarstóran borgarísjaka í mynni Eyjafjarðar. Þetta finnst mér svolítið fyndið. Meðan þjóðin hneykslast á óskiljanlegum gjörningum og gallsúrum myndverkum hringinn í kringum landið þá kemur náttúran sjálf með eitthvað sem menn eru til í að kalla „Algjört listaverk“. Listamennirnir sjálfir hljóta að staldra við og spyrja sig áleitinna spurninga. Kannski birtast svo svörin í myndverki, tja til dæmis ælandi sjómaður að rúnka sér á ísjaka?

Það skiptust á skin og skúrir í prýðisveðri í Arnarhreiðrinu um helgina. Góðar stundir áttar og ýmsu komið í verk. Meira er þó ógert og verður gert seinna. Eða þannig. Góðar stundir.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home