mánudagur, október 01, 2007

Sterk stjórn

Fjölmiðlamenn hafa ætlað að hræra upp í umræðinni með þvi að taka púslinn á fylgi stjórnarinnar í kjölfar uppsagna í fiskvinnslu eftir skipbrot fiskveiðistefnunnar og niðurskurðinn mikla. Líklega hefur verið búist við því að stuðningur við Þingvallastjórnina myndi láta á sjá en kannanir sýna hins vegar að sjö af hverjum tíu kjósendum styðja hana. Æ færri vilja kannast við að styðja framsókn og VG og furðuflokkur Frjálslyndra þurrkast út (...kannski vegna þess að leigubílstjórar voru almennt að vinna um helgina).

Útspil Guðna og félaga fyrir helgina skilar þeim ekki neinu. Andstaðan gengur örugglega með nokkrum kvíða til þingsetningar í dag, því ekki hefur þeim tekist að höggva skörð í stjórnarfylgið þótt gefið hafi á bátinn og jafnvel skort upp á samhljóm á stjórnarheimilinu. Verkefnin eru hins vegar ærin og sérstaklega ástæða til að hafa áhyggjur af efnahagsástandinu enda margar fjölskyldur orðnar æði skuldsettar. Þótt eignamyndun hafi aukist á móti þá getur slíkur ávinningur horfið eins og dögg fyrir sólu með hruni á fasteignamarkaði. Skuldirnar hverfa hins vegar ekki svo glatt og verður þá litla gleði að finna fyrir framan flatskjái landsins.

Það þarf að finna einhverja leið til að draga úr þessari gargandi neyslu og innræta fólki skynsemi. Fyrr er ekki hægt að ganga til liðs við lágvaxtafélag eins og myntbandalag Evrópu. Einnig þarf að verja hagsmuni neytenda betur. Mér finnst bæði samtökin og talsmaðurinn vera óttalegt píp. Það vantar meira cojones í þessi mál.

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home