Helgin og bækur
Ég man nú ekki aðra eins veðurblíðu og núna um helgina. Frábært þegar þetta tvennt dettur inn á sama tíma; Gott veður og helgi. Við Ásta vorum mætt upp á svalir með Corona og reyfara eftir Dan Brown. Ásta er (svo heppin að vera að) lesa Da Vinci Code, meðan ég hakkaði í mig Digital Fortress og mæli í kjölfarið með því að aðrir láti þá bók í friði. (meiri bókagagnrýni neðar)
Þegar sólar naut ekki lengur var grillað og svo fórum við í bæinn um kvöldið og hittum æskuvin minn Starkað og konu hans Noemi en þau búa í Madrid.
Í veðurblíðu laugardagsins fórum við í bíltúr sem endaði í bústaðnum hjá Gussa Steingrímssyni og þangað komu síðan Stjáni og Dagfinnur. Þar var mál manna að ríkisstjórnin hlyti að springa, fyrr en síðar. Grillað um kvöldið og margt spjallað og m.a. hlýtt á plötu sem er í vinnslu og lofar góðu.
Í vikunni sem leið lauk ég einnig við fyrsta bindið í franskri skáld-ævisögu Napóleons eftir Max Gallo. Maður hefði nú haldið að jafn merkilegur stubbur og Napóleon ætti betri höfund skilinn. Sagan fylgir Napóleoni þéttingsfast eftir og lýsir honum sem snjöllum en einþykkum metnaðarfauta sem á til að byrja með í þjóð-ímyndarkrísu milli Korsíku og Frakklands. Bókin er stútfull af lýsingum á borð við þessa: Napóleon skellir aftur hurðinni og stormar inn í herbergið. Stikaðar um gólf og kreistir hnúana saman. Aftur er hann einn og gnístir tönnum. Hann er tuttugu og þriggja ára gamall.
Hitt heldur manni við efnið, hversu lítið maður veit um þennan magnaða mann og hvernig hann kemst til valda, þannig að maður þrælar sér gegnum einhæfan stíl og algjör áhugaleysi á öðru fólki sem "kemur við sögu", eins og Jósefínu, Junot, Barras og fleirum. Allt er séð með augum hins slæga megalómaníaks sem sér annað fólk aðeins sem annað tveggja: Hindranir eða hjálpartæki á leið til valda. Ágæt raunsæ túlkun á manninum en þreytandi lesning.
Nú er komið að því að velja næstu lesningu, þar kemur ýmislegt til greina. T.d. að hafa sig í það klára Stalíngrad, eftir Anthony Beevor. Einnig eru á biðlista bækur á borð við The English Passengers, The Cloud Atlas og spennandi bókabálkur sem kallast The Baroque Cycle en ég á fyrstu tvær bækurnar í þessum bókaflokki og er hvor þeirra 1.000 bls. Það þarf hugrekki til að ráðast í það.
Ef einhver er að leita að skemmtilegri bók til að lesa vil ég mæla með The Courious Incident of the Dog in the Night Time eftir Mark Haddon (ef ég man rétt) og svo Q eftir Luther Blisset.
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home