mánudagur, október 01, 2007

Forsetinn og útrásin

Aðstoð forsetans við útrásarvíkinga þjóðarinnar hefur vakið athygli en hann hefur verið þeim innan handar og beitt embættinu til að liðka hjarir dyra sem ella hefðu eigi opnast. Það er vel til fundið hjá honum við setningu alþingis að minna þennan hóp á skyldur sínar á heimavelli og tækifærið til að láta að sér kveða með jákvæðum hætti á alþjóðavettvangi í stað þess að hugsa bara um Gucci og Bugatti. Um leið og forsetinn gagnrýnir þennan hóp slær hann vopnin snilldarlega úr höndum óvildarmanna sinna sem hafa reynt að nota samband Ólafs við auðmenn sem fleyg milli forsetans og þjóðarinnar. Þeir eru margir sem iða í skinninu að sá bak Ólafi af Bessastöðum.

[Reyndar hefur líka verið minnt á það nýlega að forsetinn getur þakkað það ákveðnum auðmanni að fá að búa á Bessastöðum.]

Það er rétt hjá Ólafi að vaxandi stéttaskipting á Íslandi mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. En það er í sjálfu sér ekkert við því að gera að ofsagróði streymi inn á örfá heimili? Best væri að þeir lánssömu haldi áfram sinni iðju en ástundi hófsemi og létu um leið landið sem fóstraði þá njóta með einhverjum hætti þannig að samfélagið auðgist um leið og þeir. Róbert Wessmann og Ingunn Wernersdóttir koma upp í hugann. Jón Ásgeir Jóhannesson hefur líka eitthvað verið að láta að sér kveða í Afríku í félagi við skoska skrilljónerinn Sir Tom Hunter, vin Clintons.

En eitt í viðbót um íslensk ríkmenni og útlönd: Af hverju hefur enginn blaðamaður reynt að komast að því hvaða auðjöfur bauð Nazarbayev, forseta Kazakstan, til Íslands, eins og Guðmundur Steingrímsson greindi frá í nýlegri grein um starf sitt sem kosningaeftirlitsmaður í þessu gerspillta landi?

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home