mánudagur, júní 30, 2008

Geir Haarde sjósundsins

Ætli þessi Benedikt eigi ekki heimsmet í fjölda skipta sem hætt er við Ermarsund?

Helgin

Til hamingju Eiríkur og aðrir Spánverjar. Sigurinn var verðskuldaður. Si si si, la copa est acqi!

MIkið var kalt á náttúrutónleikunum. Af hverju var Björk berfætt fyrst hún var lasin?

Múrararnir eru byrjaðir að berja húsið að utan aftur. Vonandi klárast þetta allt í júlí.

Sumarfrí hefur verið ákveðið: Fjórar grískar vikur í lok ágúst.

fimmtudagur, júní 26, 2008

Þýskaland

Það þarf ekki nema einn fávita í viðbót sem étur upp tilvitnunina í Gary Lineker. Þá tryllist ég.

mánudagur, júní 23, 2008

Þjóðarsáttin

Staksteinum dagsins í dag finnst höfundar afmælisgreina um Steingrím Hermannsson ýkja um of vægi hans við gerð Þjóðarsáttarinnar. Erkifjendurnir Jón Baldvin og Guðni Ágústsson eru sammála um að þjóðarsáttarsamningarnir séu einn merkasti bautasteinninn á ferli Denna. Staksteinar gera minna úr hans hlut og telja að Einar Oddur og Gvendur jaki hafi lyft þessu grettistaki nánast einir. Eins og ég man þetta lék Ásmundur Stefánsson líka lykilhlutverk í Þjóðarsáttinni en á hann er ekki minnst í Staksteinum. Úr því hljóta steinarnir að bæta. Einnig mætti minna á slaginn sem Ólafur Ragnar tók þegar stjórnin setti bráðabirgðalög sem afnam kjarasamning hans við BHMR þar sem kveðið var á um launahækkanir umfram Þjóðarsátt. Ekki held ég að ég muni lifa þann dag að Staksteinar hrósi Ólafi Ragnari fyrir þá staðfestu sem hann sýndi þá og hjó mikil skörð í fylgi Alþýðubandalagsins.

Er ekki annars kominn tími á nýja Þjóðarsátt? Til dæmis um það að bankarnir hætti að slátra krónunum okkar.

fimmtudagur, júní 19, 2008

Lifi Megas

Voðalega finnst mér ómerkilegt að menn séu að gagnrýna Megas fyrir að leigja Toyota afnotarétt af laginu sínu. Jónas Kristjánsson talar um að hann hafi selt sálu sína. Klénn málflutningur. Enginn eðlismunur á því hvort fólk eða fyrirtæki kaupa lög og plötur. Megas þarf að hafa í sig og á eins og aðrir og á líklega ekki eins mikið í lífeyrissjóði og Jónas þótt hann hafi gefið, og selt, okkur miklu miklu merkilegri hluti.

miðvikudagur, júní 18, 2008

Boston

Mér er sagt að Boston hafi unnið NBA. Einu sinni fylgdist ég aðeins með þessari deild og hélt með Larry Bird, Kevin McHale og Robert Parish í Boston Celtics. Mér skilst að þeir séu ekki lengur í liðinu en gott er að þetta félag sé komið aftur á sigurbraut.

mánudagur, júní 16, 2008

Allt í síma í Norður Oklahóma

mánudagur, júní 09, 2008

Kvissið 060608

Hér eru spurningarnar úr síðasta kvissi sem fram fór á Grand rokk á afmælisdegi Bubba Morthens síðastliðinn. Spreytið ykkur, sendið mér svörin ykkar í tölvupósti eða setjið í komment og ég gef ykkur stig.



1
Besti útvarpsþáttur á Íslandi er á dagskrá Ríkisútvarpsins á föstudagsmorgnum laust eftir kl. 9. Þátturinn heitir Óskastundin þar sem leikin eru hugljúf lög að vali hlustenda og hlýjar kveðjur sendar um landið. Hver er aðal-umsjónarmaður þáttarins?

2
Hver er aðalsöguhetja kvikmyndarinnar Quantum of Solace verður frumsýnd í haust? Leikstjóri er Marc Forster, sem einnig gerði Monsters Ball, og mun kosta litlar 200 milljónir bandaríkjadala í framleiðslu.

3
Hér verður lesin lýsing á býsna kaldlyndri kvensu

Hún er spengileg og mögur,
nístings köld en fögur.
Ég hef aldrei frétt hún hafi reynt að koma strákum til.
Sjaldan sést hún masa,

Ég skal gefa mér tíma,
ég skal leggja í líma.
Til að bræða þennan ís sem hún brynjar sig í sífellu með.
Ekki fyrir mig ég set það
og ég veit ég get það.
Því að ástin hún brennur, þó að henni sé það þvert um geð.

Hvað er þessi kona kölluð?


4
Enn er spurt um kvenkynið

Melissa Sue Anderson lék stóru systurina Mary
Melissa Gilbert lék miðsysturina Lauru
Tvíburarnir Lindsay og Sidney Greenbush léku litlu systur sem hét Carrie.

Hvert var ættarnafn þessara systra?


5
Margar spurningar hér í kvöld eru innblásnar af tímaritinu Skakki turninn. Á hvaða öld var hafist handa við að reisa hann? Til vísbendingar má segja að eitt meista stórvirki Íslendinga frá sömu öld er fyrsta málfræðiritgerðin svokallaða sem er ómetanleg heimild varðandi sögu íslenska hljóðkerfisins. Á sömu öld var regla Templarariddarana stofnuð og Djengis Khan fæddist


6
Jörð skalf í síðustu viku fyrir austan fjall. Sem betur fer var Rudy Guiliani þeirra Sunnlendinga, Ólafur Helgi Kjartansson á staðnum og bjargaði fólkinu. Það leiðir hugann að öðrum dýrlingi Ólafi helga Noregskonungi Haraldssyni sem féll í Stiklastaðaorrustu. Kraftaverk voru tengd honum eftir lát hans en kaþólska kirkjan tók hann ekki formlega í dýrlingatölu fyrr en árið 1888. En það er ekki spurt um það heldur einfaldlega hvað var Ólafur helgi kallaður meðan hann var á lífi?
Ólafur digri

7
Nýr ritstjóri tók við Morgunblaðrinu í vikunni og er blaðið nú gjörbreytt. Á forsíðu fyrsta tölublaðsins gat að líta stórmerkt náttúruundur en kría hafði tyllt sér á kollinn á álft sem synti í lítilli tjörn og lét sér átroðsluna í léttu rúmi liggja. Skýringin var fyrst talin vera sú að þarna væri um geldfugl að ræða – en svo reyndist hún bara vera úr plasti blessuð álftin.
Nú er spurt: Hvar var þessi mynd tekin sem Ólafur Stephensen lét prýða sína fyrstu Moggaforsíðu? Til vísbendingar má setja að hinn 11. júní 1994 sameinaðist bærinn sem spurt er um Neshreppi utan Ennis, Breiðuvíkurhreppi og Staðarsveit undir nýju nafni.


8
Talandi um Ólaf þá getum við varla gengið framhjá borgarstjóra vorum Ólafi F. Magnússyni. – og þó…við gætum það svo sem…eins og meirihluti borgarbúa hefur kosið að gera þegar spurt er traust. Mikið vatn hefur runnið til sjávar um Elliðaárnar frá því Ólafur sló í gegn með því að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum eftir að hafa verið kallaður hryðjuverkamaður á landsfundi. Ólafur var svo valinn maður ársins á Rás 2 í kjölfarið. Hvaða ár var það?



9
Ólafur Ragnar Grímsson hefur boðið sig fram til að vera forseti Íslands fjórða kjörtímabilið í röð. Ólafur er heilsuhraustur og manna ólíklegastur til að verða ellidauður í embætti en það hefur aðeins einu sinni komið fyrir á Íslandi að forseti hafi látist í embætti. Hver var það?

10
Samsæriskenningasmiðir, Dan Brown lesendur og sjóræningjasagnfræðingar geta nú hætt leitinni að hinum heilaga gral. Hann er fundinn, eða svo gott sem fundinn. Komið hafa í ljós óumdeildar vísbendingar í verkum Boticellis og Dantes sem vísa til Skipholtskróka á Kili í Hrunamannahreppi. En hvað heitir hinn glaðbeitti Framsóknarmaður sem gegnir embætti hreppsstjóra Hrunamannahrepps?

11
Monty Python and the Holy grail. Í þáttunum Nýja Evrópa fór Monty Python leikarinn Michael Palin um þau lönd sem áður voru austan járntjaldsins en eru óðum að vakna til nýs lífs. Meðal annars kom hann til merkilegs svæðis í Rússlandi – eða öllu heldur til landsvæðis sem tilheyrir Rússlandi en liggur utan Rússlands klemmt á milli Póllands og Litháen. Þetta landsvæði hét áður Königsberg og tilheyrði Prússlandi en féll í hlut Rússa eftir síðari heimstyrjöldina og nú búa þarna rúmlega 400 þúsund manns. Hvað er þetta svæði kallað?

Og þá að stjórnmálum:

12
Hvaða þrír þingmenn eru fremstir í stafrófinu?

13
Hvaða ártal stendur framan á alþingishúsinu?

14
Hvert er stærsta núlifandi rándýr sem fyrirfinnst á landi? Flest karldýrin eru um 400 til 600 kíló að þyngd, en geta náð allt að 800 kg þyngd.

15
Nú er að hefjast merkileg íþróttakeppni sem margir, ekki síst margir hér inni, hafa beðið eftir með óþreyju og geta séð í sjónvarpinu á morgun. Þetta er að sjálfsögðu Gullmótið í frjálsum sem fer fram á Bislett leikvanginum. Í hvaða borg er Bislett leikvangurinn?

16
Evrópumeistaramótið í knattspyrnu hefst á morgun í Sviss og Austurríki. Óhætt er að segja að hófleg bjartsýni ríki í Rúmeníu enda lenti landið í svokölluðum dauðariðli og þarf að keppa við þrjár af sterkustu knattspyrnuþjóðum Evrópu um sæti í útsláttakeppninni. Hvaða þrjú lið eru þetta?

17
Ólympíuleikarnir blasa einnig við og Bergur Ingi Pétursson úr FH mun taka þátt fyrir okkar hönd, en hann náði lágmörkunum í sinni íþrótt fyrir skemmstu. Hver er íþrótt Bergs Inga?

18 – Bjórspurning
Nú fáum við eintak af hinni sívinsælu vísnagátu

Hún ískaldan freyðandi bjórinn ber
Hermann drap'ana
Villi ber'ana
Og gettu nú hver hún er

19
Árið 1991 gaf Karl Örvarsson úr sólóplötu sína Eldfuglinn. Karl vann að þessari fyrstu sólóplötu sinni í heil tvö ár ásamt upptökustjóranum Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni (Todmobile) og fullyrða má að útkoman er góð. Á plötunni eru meðal annars lagið 1700 vindstig sem bendir til þess að Karl sé ekki menntaður verðurfræðingur. Á tónlist.is segir: “Hann nýtur aðstoðar nokkurra færustu tónlistarmanna landsins auk þess sem Nick Serrate leikur á píanó í titillaginu. Metnaðarfull og grípandi plata frá ört vaxandi lagasmið og söngvara.” Þessi Nick Serrate var á þessum tíma í vinsælli hljómsveit sem er væntanleg hingað til lands og leikur í höllinni 10. júní. Hvaða hljómsveit er það?


20
Samkvæmt tímatali Maya í Mexíkó er ljóst að fáum hér inni mun gagnast að safna viðbótarlífeyrissparnaði því heimsendir vofir yfir. Mayar höfðu með sér mjög nákvæmt tímatal og spáðu nákvæmlega fyrir um heimsendi sem verður við vetrarsólstöður. Hvaða dag og hvaða ár verður heimsendir samkvæmt spádómi Maya. Þess má geta að sama ár rennur út samningur Lewis Hamilton við McLaren liðið.


21
Nú kemur umdeilda og svínslega spurningin í þetta skiptið og mikilvægt að fylgjast vel með. Þetta er bókmenntaspurning, en verður kvikmyndaspurning árið 2011. Söguhetjan í bókinni bjargar lífi sínu í dimmum helli með því að spyrja þessarar gátu. Smávaxin óvættur sem bjó í hellinum kunni vel að meta gátur og upphófst mikið gátustríð sem lauk með þessari sem ég ætla að spyrja. Sá vondi gat ekki svarað og fyrir vikið slapp sá góði sem spurði gátunnar út úr hellinum og mikið ævintýri hófst sem snerist meira og minna um þann hlut sem nú er spurt um. Þeir sem hafa lesið bókina vita að sjálfsögðu svarið en þeir sem þurfa að giska geta haft í huga að þessi gáta markar í raun upphafið að miklum ævintýrabálki bæði í bókum og kvikmyndum. Sem sumum fannst skemmtilegt en öðrum langdregið og drepleiðinlegt.
Gátan sjálf er einföld:

Hvað er ég með í vasanum?

22
Bob Dylan lék á tónleikum í Höllinni í lok maí. Ekki tókst að selja alla miðana að þessu sinni enda algjör kreppa, atvinnuleysi og volæði. Dylan tók þó ekkert dræmri mætingu heldur lék við hvurn sinn fingur og brosti jafnvel. Það gerði hann ekki síðast þegar hann spilaði á Íslandi. Hvaða ár var það?

23
Það vakti athygli að einn hressasti gaurinn á sviðinu á tónleikunum með Bob Dylan í var Óskarsverðlaunastyttan sem hann vann árið sem Björk var líka tilnefnd. Hvað hét kvikmyndin sem Bob Dylan vann verðlaunin fyrir?

24
Við vitum að í geimnum þá heyrir enginn þig öskra. Nýlega bárust fréttir um alvarlegt ástand í alþjóðlegu geimstöðinni og beið heimsbyggðin milli vonar og ótta um skeið. Eftir hetjudáð rússneska geimfarans Olegs Kononenko var loksins hægt að leysa vandann. Hver var vandinn?

25
Deilt er um lagningu vegar milli Þingvalla og Laugarvatns. Þar liggur nú lélegur slóði sem hefur fengið lítið og lélegt viðhald undanfarna áratugi enda bara tugþúsundir erlendra ferðamenn sem fara um hann en ekki nógu margir kjósendur. Hvað heitir leiðin?

26
Danski listamaðurinn Ólafur Elíasson sýnir nú verk sín í stóru listasafni í New York. Sýningin heitir Take your Time. Hvað heitir safnið þar sem hann sýnir?

27
Leikkonan Michelle Williams á tveggja ára dóttur sem heitir Matilda. Hinn frægi og dáði faðir Matildu lést hins vegar í janúar vegna of stórs skammts af lyfjum. Hvað hét hann?

28
Hvað heita Íslandsvinirnir sem eru foreldrar hinna ungu systkina Kristjáns Valdimars Hinriks Jóns og Ísabellu Henríettu Ingiríðar Margrétar?

29
Hvaða tegund landdýra eru skyldust hvölum?

30
Hvað heitir mamma Ronju ræningjadóttur í samnefndu leikriti?

Kampavínskátir sjallar

„Það er mikil ánægja með þetta og við skáluðum alloft í kampavíni“ segir Júlíus Vífill um hvernig haldið var upp á það að sigurvegarinn í síðasta prófkjöri var settur til hliðar. Reyndar var Gísli Marteinn ekki á staðnum til að taka þátt í fagnaðarlátunum og smakka kampavínið en segist sáttur en svarar engu um framtíðarmetnað. Eru kampavínsberin kannski súr?

Gott fyrir sjallana hugsar maður á hliðarlínunni. Vonandi geta þau núna farið að gera eitthvað fyrir borgarbúa í stað þess að berja hvert á öðru. Sjálfur tek ég kannski upp kampavín í kvöld til að halda upp á það að í morgun mættu langþráðir múrarar og byrjuðu að þefa uppi steypuskemmdir. Vonandi láta þeir verkin tala.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Menningarleg afstæðishyggja II

Getur verið að The Big Lebowski sé besta mynd sem gerð hefur verið?

Skondin mistök 'nýja' Moggans

Þættinum barst bréf:
Varðandi "stórfrétti" á forsíðu Moggans
Félagar

Nú hefur Mogginn minn blessaður gert búmmertu, ég lít reyndar alltaf á dagatalið þegar svona frétt birtist, en ónei, enginn 1. apríl í dag.

Fyrir þá sem ekki fá Moggann innum lúguna sína á morgnanna, þá er mynd af kríu sem situr á höfðinu á plastlúðursvani á forsíðunni og 3 myndir inní blaðinu af sama fyrirbæri. Fyrirsagnir eru „Álftin fær sér kríu, amaðist ekki við laumufarþeganum“ og „Kría sníkti sér far með álft“.
Með fylgja myndir af kríu á höfði annars plastsvansins af tveimur á tjörn við Ólafsvík.

Þessir plastlúðursvanir hafa reyndar blekkt margt gott fólk, en þarna fær nýr ritstjóri Moggans „fljúgandi start“.

mánudagur, júní 02, 2008

Menningarleg afstæðishyggja

Ég á mér mörg mismunandi uppáhaldslög með Bob Dylan.